Innlent

Hlýnar og bætir í vind

Samúel Karl Ólason skrifar
Samkvæmt spákorti Veðurstofunnar stefnir í fínan dag víða um land.
Samkvæmt spákorti Veðurstofunnar stefnir í fínan dag víða um land. Veðurstofa Íslands
Í dag mun hlýna og bæta í vind á landinu og er útlit fyrir „hið þokkalegasta veður“, eins og það er orðað á vef Veðurstofu Íslands. Spáð er austan 5-13 m/s í dag, en allhvasst með suðurströndinni. Í kvöld verður vindurinn hins vegar kominn í austan 10-18 víða á landinu en 18-23 syðst, þar sem búið er að gefa út gula viðvörun.



Gífurlega stór lægð er stödd langt suður í hafi en dreifir hún úr sér yfir stóran hluta Norður-Atlantshafs. Hún beinir til okkar hlýjum loftmassa og mun hiti á vesturhelmingi landsins ná 14 stigum.

„Títtnefnd lægð ræður öllu í veðrinu hjá okkur og í kvöld sendir hún skil að landinu og þá hvessir og bætir í úrkomu. Seint í kvöld má búast við strekkingi eða allhvössum vindi svona heilt yfir, en þá er útlit fyrir storm og snarpar hviður syðst á landinu og við Öræfajökul og varir það ástand fram eftir þriðjudagsmorgni,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings, sem fylgir spá dagsins.

Á morgun má búast við því að áfram verði hlýtt miðað við árstíma en þó verður rigning á Suðausturlandi og Austfjörðum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×