Innlent

Hlýnar smám saman í vikunni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Spákort fyrir hádegið í dag. Það verður kannski ekki hlýtt alls staðar en víðast hvar bjart af kortinu að dæma.
Spákort fyrir hádegið í dag. Það verður kannski ekki hlýtt alls staðar en víðast hvar bjart af kortinu að dæma. veðurstofa íslands
Það mun hlýna smám saman á landinu nú í vikunni ef marka má hugleiðingar veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Þar kemur fram að útlit sé fyrir að miðvikudagur og fimmtudagur verði hlýjustu dagarnir í vikunni en spár gera svo ráð fyrir að það kólni dálítið um næstu helgi.

„Hins vegar til að fá svona hlýindi þarf að fá loft ættað langt sunnan úr höfum og því fylgir gjarnan væta og þannig verður það einnig í þetta sinn,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Það verður þó ójafnt gefið hvað úrkomuna varðar því rigningin verður aðallega bundin við vestanvert landið og svo eitthvað austur með Suðurlandinu. Aðrir landshlutar gætu síðan fengið einhverja úrkomu um helgina þegar það kólnar á ný.

Veðurhorfur á landinu í dag og næstu daga:

Austan- og suðaustan 8-15 m/s S- og V-til, hvassast við ströndina, en annars hægari. Dálitlar skúrir eða él á S-verðu landinu, en annars yfirleitt bjartviðri. Hiti víða 1 til 7 stig að deginum, en á köflum talsvert frost í innsveitum í nótt.

Suðlægari og hlýnar heldur á morgun, annars svipað veður.

Á þriðjudag:

Suðaustan 8-15 m/s og dálítil súld S- og V-lands, hvassast við ströndina, en annars hægari og þurrt. Hlýnar í veðri og hiti 2 til 8 stig síðdegis, mildast V-ast.

Á miðvikudag:

Sunnan- og suðaustanátt, 10-15 m/s og rigning á V-verðu landinu, en annars hægari og bjartviðri NA-lands. Hiti víða 3 til 8 stig.

Á fimmtudag:

Fremur mild suðlæg átt og rigning með köflum vestantil, en annars þurrt.

Á föstudag:

Austlæg og síðar breytileg átt og víða rigning. Hiti 3 til 8 stig að deginum.

Á laugardag:

Austlæg átt og rigning A-lands, en hæg vestlæg átt og þurrt að mestu vestantil. Heldur svalara.

Á sunnudag:

Útlit fyrir norðlæga eða breytilega átt með úrkomu í flestum landshlutum. Hiti 0 til 6 stig fyrir daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×