Reykjavíkurborg hyggst brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla á næstu árum samkvæmt aðgerðaáætlun sem kynnt var í borgarráði í gær. Til þess þarf að fjölga leikskólaplássum um 750-800. Þannig er stefnt á að bjóða öllum 12 mánaða börnum og eldri leikskólaþjónustu á vegum borgarinnar.
Áætlunin gerir ráð fyrir að sjö nýjum ungbarnadeildum verði komið upp næsta haust auk þess sem fimm til sex nýir leikskólar verði byggðir á næstu árum. Í tilkynningu segir að jafnframt verði gripið til margvíslegra aðgerða til að bæta aðstöðu á leikskólum og vinnuumhverfi leikskólakennara og annars starfsfólks.
Tillögur um uppbyggingu leikskólanna byggjast á vinnu starfshóps um verkefnið að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, sem borgarstjóri skipaði á vordögum 2016.
Aðgerðirnar eru sundurliðaðar eftir borgarhlutum og taka mið af áformum um þéttingu byggðar, nýjum hverfum og spám sem fyrir liggja um væntanlegan barnafjölda í hverfunum.
Aðgerðirnar sem kynntar voru í borgarráði fela enn fremur í sér að gripið er til margvíslegra aðgerða til að bæta vinnuumhverfi á leikskólum borgarinnar. Þær byggjast á tillögum starfshóps skóla- og frístundaráðs um nýliðun og bætt vinnuumhverfi leikskólakennara sem skilaði niðurstöðum í síðustu viku. Þar er meðal annars lögð áhersla á aukið rými barna, fjölgun starfsfólks á elstu deildum, aukinn undirbúningstíma, fjölgun leikskólakennara og annars fagfólks, fjármagn til heilsueflingar og liðsheildarvinnu, aðgerðir til að efla móttöku nýliða m.a. með handleiðslu, ímyndarvinnu og kynningu á störfum á leikskólum.
Loks var samþykkt tillaga um að auglýst verði 60 sumarstörf á leikskólum fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á námi í kennslu- og uppeldisfræðum. Markmiðið er að kveikja áhuga ungs fólks á því að starfa á leikskólum og leggja stund á nám í leikskólakennarafræðum.
