Innlent

Erfiðar akstursaðstæður á Vestfjörðum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ísfirðingar mega gera ráð fyrir hvassviðri í dag.
Ísfirðingar mega gera ráð fyrir hvassviðri í dag. Vísir/Rósa
Þó svo að útlit sé fyrir hæga suðlæga, breytilega átt á landinu í dag mega Vestfirðingar búast við töluverðu hvassviðri. Veðurstofan gerir ráð fyrir norðan 13 til 18 m/s með snjókomu á Vestfjörðum í dag og því er gul viðvörun í gildi fyrir svæðið fram á miðjan dag. Jafnframt má ætla að akstursskilyrði þar verði erfið vegna takmarkaðs skyggnis og jafnvel þæfings á vegum, sérílagi fjallvegum á svæðinu.

Þá mun einnig bæta í vind vestast á landinu í dag, allhvasst verður á Snæfellsnesi uppúr hádegi og strekkingur Reykjanesi í kvöld með úrkomu en áfram mun hægari vindur annarsstaðar.

Hitinn verður á bilinu 0 til 4 stig en gera má ráð fyrir næturfrosti, jafnvel talsverðu fyrir norðan að mati Veðurstofunnar. Einnig má ætla að stöku slydduél heilsi upp á landsmenn í dag en að það verði bjart og milt veður austast á landinu.

Búast má við norðvestan kalda á morgun og að það verði úrkomuminna en síðan norðaustlægari áttir með dálitlum slydduéljum eða élum, einkum norðaustantil en úrkomulítið sunnanlands á sunnudag.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Norðvestlæg átt 8-13 m/s en hægari austanlands. Dálítil él eða slydduél, en þurrt og bjart sunnan- og suðaustanlands. Hiti um og undir frostmarki.

Á sunnudag:

Austlæg átt 5-13 og svolítil él eða slyddél, einkum á Austurlandi en léttskýjað suðvestantil. Hiti kringum frostmark.

Á mánudag:

Suðaustan 13-20 m/s og rigning eða slydda, en heldur hægari og úrkomulítið norðaustanlands. Hiti 0 til 5 stig en vægt frost í innsveitum.

Á þriðjudag og miðvikudag:

Útlit fyrir ákveðna suðaustan átt og lengst af rigning eða slydda um sunnanvert landið, en þurrt að mestu norðanlands. Hiti breytist lítið.

Á fimmtudag:

Hæg norðlæg eða breytileg átt og dálítil él norðanlands en léttskýjað syðra. Hiti um og undir frostmarki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×