Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, staðfesti þetta í samtali við Vísi í morgun.
Atvikið átti sér stað í fyrsta leikhluta leiksins og dæmdu dómarar leiksins óíþróttamannslega villu á Taylor. Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, sagði í viðtali eftir leikinn í gær að hann hefði viljað sjá Taylor rekinn úr húsi fyrir brotið.
Hannes sagði dómaranefndina hafa setið yfir þessu fram á kvöld í gær og snemma í morgun og hafi eftir samtöl við dómara leiksins ákveðið að kæra atvikið, en dómaranefndin hefur kæruvaldið í málum sem þessum.
Aga- og úrskurðarnefnd hefur málið nú á sínu borði og fer yfir það. Hannes sagðist vonast eftir því að úrskurður liggi fyrir seinni partinn á morgun, laugardag.
ÍR vann leikinn í gær 67-64 og er með 2-1 forystu í einvígi liðanna í 8-liða úrslitum Domino's deildar karla. Fjórði leikur einvígisins fer fram á sunnudaginn í Garðabænum þar sem ÍR getur komist í undanúrslit.
Ef að Taylor verður dæmdur í bann þarf það að liggja fyrir klukkan 12:00 á sunnudaginn svo bannið taki gildi fyrir leikinn á sunnudagskvöld.