Fyrst var greint frá málinu í Morgunblaðinu i dag en þar kom fram að margir hafi áhyggjur af hjólreiðamönnum sem þykja fara fremur hratt á stígum sem eru hringinn í kringum Seltjarnarnes.
Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, segir bæinn með til skoðunar nokkur úrræði til að hægja á hjólreiðamönnum. Líklegasta lendingin er sú að það verði gert með fræðslu og vinsælum tilmælum en engum viðurlögum verði beitt.

Ásgerður segir frá Gróttu og að golfskálanum úti á Nesi sé stígurinn einfaldur en til standi að breikka hann.
15 kílómetra hámarkshraði jafnvel í myndinni
Hún segir hugmyndir um að setja hámarkshraða á sum svæði en aðspurð nefnir hún fimmtán kílómetra hraða á klukkustund sem dæmi um ásættanlegan hámarkshraða.Hún segir æ fleiri farna að æfa hjólreiðar og margir stundi hjólreiðar sér til skemmtunar. Það geti skapað aðstæður þar sem mikill hraði kappsamra reiðhjólamanna fer ekki saman við þá sem eru með börnin á gangi á þessum stígum.
„Þá verður fólki brugðið, sérstaklega börnum og eldra fólki, þegar koma hópar fram hjá á miklu hraða án allra viðvarana. Þetta er alltaf að verða vinsælla og maður sér muninn um leið og snjór og frost er farið úr jörðu, þá koma allir á fullu á hjólunum. Þetta er ekki eitthvað sem er að fara að hætta en það þurfa allir að taka tillit til hvors annars.“
Hugmyndir komnar erlendis frá
Hún segir þær hugmyndir sem eru til skoðunar margar hverjar fengnar erlendis frá þar sem er meiri hefð fyrir hjólreiðum og meiri tillitssemi ríki. Erlendis tíðkist til dæmis að koma fyrir hvítum borðum sem eiga að gefa hjólreiðamönnum merki um að hægja á sér.Málið ver í útfærslu hjá skipulagsnefnd Seltjarnarnesbæjar og er von á að það fari fyrir bæjarstjórn í apríl næstkomandi.