Sport

Gunnar sagður kominn með stóran bardaga í Liverpool

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gunnar Nelson snýr líklega aftur í lok maí.
Gunnar Nelson snýr líklega aftur í lok maí. vísir/getty
Gunnar Nelson er sagður vera kominn með stóran bardaga gegn Bandaríkjamanninum Neil Magny á UFC-bardagakvöldinu í Liverpool 27. maí og snýr þá aftur í búrið eftir tapið gegn Santiago Ponzinibbio í Glasgow í júlí í fyrra.

Það er MMA-blaðamaðurinn Farah Hannoun sem greinir frá þessu á Twitter-síðu sinni en hver fjölmiðlinn á fætur öðrum sem fjallar um UFC og blandaðar bardagalistir hefur skrifað frétt upp úr tísti hennar.

Heimamaðurinn Darren Till, sem keppir í veltivigt eins og Gunnar og Magny, berst í aðalbardaga kvöldsins í Liverpool en UFC vildi að Gunnar og Till myndu mætast í Lundúnum í mars. Ekkert varð úr því.

Haraldur Dean Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars Nelson, sagðist ekki geta tjáð sig um þetta þegar að Vísir spurði hann um málið en sjálfur hefur Magny greint frá því að hann sé kominn með bardaga.

Magny birtir mynd af sér á Instagram og segir: „Búinn að skrifa undir bardaga. Tilkynning væntanleg.“ Hann fer þó ekkert nánar í málið og segir við hvern hann á að berjast en svo virðist sem Gunnar og Magny muni mætast í Liverpool 27. maí.

Neil Magny er í níunda sæti veltivigtarinnar en Gunnar í þrettánda sæti. Bandaríkjamaðurinn barðist síðast við Carlos Condit á UFC 219-bardagakvöldinu í Las Vegas í desember á síðasta ári og vann, en hann hefur unnið tvo af síðustu fjórum bardögum sínum í UFC sem allir hafa verið á númerakorti.

Í heildina hefur þrítugi reynsluboltinn Neil Magny unnið 20 bardaga á atvinumannaferlinum og tapað aðeins sex, þar af hefur hann unnið þrettán og tapað fimm í UFC síðan hann þreytti frumraun sína þar árið 2013.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×