Fótbolti

Fyrrum samherjar Arons Pálmarssonar lækkaðir í launum eftir slæmt tap

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Pálmarsso kom sér frá Veszprém í vetur.
Aron Pálmarsso kom sér frá Veszprém í vetur. vísir/getty
Leikmenn og þjálfarar ungverska stórveldsins Veszprém hafa verið lækkaðir niður í lágmarkslaun vegna frammistöðu sinnar á tímabilinu. Félagið gaf út tilkynningu þess efnis í dag.

Veszprém tapaði með sjö marka mun, 32-25, á móti danska liðinu Skjern í fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar í handbolta um helgina. Tandri Már Konráðsson leikur með Skjern.

Þetta tap fyllti mælinn hjá stjórn félagsins og þeim sem borga brúsann. Þeir eru ekki hrifnir af frammistöðu liðsins og hafa lækkað laun allra niður að lágmarkslaunum og skammast sín ekkert fyrir það.

„Stjórn félagsins telur að sum úrslit Veszprém á þessari leiktíð séu óásættanleg. Frammistaðan hefur stundum verið sérstaklega slæm og hugarfarið sömuleiðis. Þetta er eitthvað sem sæmir ekki 40 ára sögu félagsins og er móðgun við alla sem hafa lagt sitt af mörkum til þess í gegnum tíðina,“ segir í yfirlýsingu Veszprém.

„Í ljósi atburðanna hefur félagið og fyrirtækið á bak við liðið ákveðið að stöðva allar launagreiðslur yfir lágmarkslaunum til leikmanna og þjálfara til loka leiktíðar. Lokaákvörðun um þetta mál verður tekin miðað við gengi liðsins í næstu leikjum.“

Veszprém hefur 25 sinnum orðið meistari í Ungverjalandi og unnið deildina þar tíu ár í röð. Það komst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð og var nálægt því að vinna hana í fyrsta sinn en glutraði niður níu marka forskoti í seinni hálfleik.

Aron Pálmarsson yfirgaf Veszprém eftir miklar deilur í vetur en þetta gríðarlega metnaðarfulla handboltafélag hefur sankað að sér stórstjörnum sem fá mikið greitt fyrir sín störf. Þangað til núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×