Það kom ekki mikið á óvart að Haukamaðurinn Kári Jónsson var útnefndur bestur. Hann fór á kostum með Haukum í vetur, og varð deildarmeistari með liðinu á fimmtudaginn.
Kári var mættur í settið hjá strákunum í gær og ræddi við þá um veturinn.
„Við vorum heppnir í því hvernig liðið púslaðist saman hjá okkur, en þetta var góður vetur hjá okkur,“ sagði Kári.
Kári var lykilmaður í liði Hauka fyrir þremur og tveimur árum síðan, fer síðan út í háskólaboltann en kemur heim snemma á þessu tímabili. Hver er munurinn á liðinu þá og núna?
„Núna vitum við aðeins betur hvað við erum að fara út í. Við vitum hvað þarf að gera til þess að vinna leiki í úrslitakeppninni og við erum betur tilbúnir í það núna.“

Jón Halldór Eðvaldsson spurði Kára út í ábyrgðina og aldurinn en Teitur Örlygsson kom Kára til varnar, „þú þart ekki að sýna nafnskírteini til að spila körfubolta.“
„Fyndið að Teitur sé að tala um nafnskírteini. Hann er það gamall. Nafnskírteini eru ekki til lengur, Kári veit allavega ekki hvað nafnskírteini er,“ greip Kjartan Atli Kjartansson þá inn í.
Haukar unnu sinn fyrsta deildarmeistaratitil á fimmtudaginn, hvenær rann það upp fyrir þeim að þeir gætu náð þeim áfanga?
„Eftir KR-leikinn var þetta orðið eitthvað sem við vorum að pæla í. Framan af þá var þetta ekki eitthvað sem við vorum að hugsa um, við vorum bara að vinna leiki. En eftir KR leikinn heima var þetta möguleiki,“ sagði Kári.
„Við viljum halda heimavellinum sterkum og hafa það þannig að lið komi til okkar með lítið sjálfstraust og líði ekki vel á okkar heimavelli. Við höfum gert mjög vel á heimavelli og það skiptir okkur miklu máli.“

Keflavík er eina liðið sem hefur unnið Hauka á heimavelli til þessa, mun það hafa áhrif í úrslitakeppninni?
„Nei, ekki fyrir okkur allavega.“
„Verður það semsagt 3-0. Ætlaru að gefa það út hér?“ spurði Fannar Ólafsson.
„Við stefnum á það, en við tökum einn leik í einu,“ sagði hógvær Kári Jónsson.
„Sá leikur var í október og þeir voru með öðruvísi lið og við líka. Þó við séum ekki búnir að breyta mannskapnum þá höfum við þroskast mikið.“
Hver er helsti styrkleiki þessa unga leikmanns?
„Að stjórna liðinu. Fá alla tilbúna og að við séum á sömu blaðsíðu. Það finnst mér skipta miklu máli og það er mitt hlutverk að það sé á hreinu. Ef mönnum líður vel og eru í réttu hlutverki inn á vellinum þá spila þeir vel,“ sagði Kári Jónsson.

Hver er staðan á Kára?
„Ef ég svara akkúrat núna þá er hún geðveik. Ég finn ekki fyrir neinu. En ég fer eftir helgi að prófa að byrja að skjóta og dripla og þá lendir maður kannski á vegg, en það verður bara að koma í ljós.“
Spjall strákanna í Domino's Körfuboltakvöldi við Kára Jónsson, besta leikmann seinni hlutans í Domino's deild karla má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.