Íslenska liðið er í átjánda sæti og hefur aldrei verið ofar á FIFA-listanum. Íslenska landsliðið hækkaði sig um tvö sæti þegar febrúarlistinn var birtur og það breyttist ekkert á milli mánaða enda engir landsleikir spilaðir á þessum tíma.
Það eru líka mjög litlar breytingar á efstu liðum listans en Pólland er eina landsliðið sem hækkar sig meðal þeirra tuttugu efstu. Pólland fer upp um eitt sæti og situr við hlið Spánar í sjötta sætinu.
Svíar eru áfram einu sæti fyrir neðan Íslands en Danir eru í tólfta sæti og efstir Norðurlandaþjóða. Næst á undan Íslandi er landslið Mexíkó en þjóðirnar mætast einmitt í vináttulandsleik í Bandaríkjunum seinna í þessum mánuði.
Ísland mætir líka Perú í Bandaríkjaferðinni en Perúmenn eru í ellefta sæti listans. Takist strákunum okkar vel upp í þessum tveimur leikjum þá gæti íslenska liðið því hækkað sig ennfrekar á listanum.
Með því að halda sæti sínu meðal tuttugu bestu knattspyrnulandsliða heims þá setur íslenska landsliðið nýtt Íslandsmet.
Ísland hefur nefnilega aldrei áður verið áður í þrjá mánuði samfellt meðal tuttugu efstu knattspyrnulandsliða heims en liðið var í 20. sæti í janúar og í 18. sæti í febrúar.
Íslenska landsliðið var mest áður inn á topp tuttugu í tvo mánuði í röð frá júlí (19. sæti) til ágúst (20. sæti) í fyrra.
