Sjálfstæðisflokkurinn myndi bæta við sig tæpum 10 prósentustigum frá kosningunum 2014 ef niðurstöður borgarstjórnarkosninga í vor yrðu í takti við könnunina. Flokkurinn bætir við sig einu prósentustigi frá því að Fréttablaðið kannaði stuðning við framboð í Reykjavík í lok ágúst. Flokkurinn mælist núna með 35,2 prósenta fylgi.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar tapar Samfylkingin tæpum fimm prósentustigum frá síðustu kosningum en tvöfaldar fylgi sitt frá síðustu könnun Fréttablaðsins. Flokkurinn mælist núna með 27,2 prósent.

Samkvæmt skoðanakönnuninni er staða Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík mun sterkari en staðan var í Reykjavíkurkjördæmunum í alþingiskosningunum í haust, en flokkurinn fékk um 23 prósent í hvoru kjördæmi fyrir sig.
„En þannig var alltaf gamla myndin. Sjálfstæðisflokkurinn hafði alltaf miklu meira fylgi í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík en hann fékk í þingkosningum og það hefur oft verið þannig þó að það hafi ekki verið þannig í einhverjum kosningum undanfarið,“ segir Eiríkur Bergmann.
Samfylkingin kemur líka miklu betur út í þessari könnun en niðurstaðan varð í Reykjavíkurkjördæmunum í þingkosningum. Flokkurinn fékk um 13 prósent í Reykjavíkurkjördæmunum. VG er hins vegar með mun minna fylgi en flokkurinn fékk í þingkosningunum í Reykjavíkurkjördæmunum. Hann er með tólf prósent í könnuninni en var með tæp 19 prósent í Reykjavík suður og tæp 22 í Reykjavík norður.