Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhlutanum. Heimamenn gerðu áhlaup snemma leiks en gestirnir frá Egilsstöðum svöruðu og það munaði aðeins tveimur stigum á liðunum eftir fyrstu tíu mínúturnar.
Í öðrum leikhluta hrundi allt í leik Hattar. Þórsarar skoruðu að vild á meðan lítið gekk í liði gestana og fór leikhlutinn 35-12 fyrir Þór og heimamenn fóru með 25 stiga forystu inn í leikhléið.
Eftir það var ekki aftur snúið. Það var allt annað að sjá til liðs Hattar í upphafi seinni hálfleiksins og þeir stóðu vel í Þórsurum og var jafnt á með liðunum. En það gerði lítið fyrir Hött, þeir voru langt undir í leiknum og þurftu að gera miklu meira en að jafna leik Þórsara til að koma til baka.
Fjórði leikhluti var svo bara meira af því sama, Þór komst í 30 stiga mun snemma í leikhlutanum og úrslitin ráðin.
Afhverju vann Þór?
Annar leikhluti gerði eins og áður segir út um leikinn. Höttur gleymdi því hvernig á að spila vörn á meðan lítið gekk í sóknarleiknum. Þór gat spilað nærri allan seinni hálfleikinn aðallega á mönnum af bekknum og Hetti gekk lítið að minnka muninn, það segir ýmislegt um spilamennsku liðsins.
Hverjir stóðu upp úr?
Chaz Williams átti stórleik í fyrri hálfleik og skoraði 28 stig. Hann kom lítið við sögu í seinni hálfleik. Halldór Garðar Hermannsson skilaði sínu og mikið af yngri leikmönnum Þórs áttu fínar innkomur í leikinn.
Hvað gekk illa?
Það var fátt sem gekk vel hjá Hetti. Sóknarleikurinn var oft á tíðum mjög erfiður og þeir voru að fá á sig mjög mikið af villum í varnarleiknum.
Hvað gerist næst?
Það er þétt spilað í deildinni og er næsta umferð strax á sunnudaginn. Þá fara Hattarmenn í Vestubæinn og mæta KR og Þórsarar mæta nöfnum sínum frá Akureyri á Akureyri.

„Ánægður með fínt framlag og mjög góðan annan leikhluta,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs, eftir leikinn. „Vorum hægir varnarlega í fyrsta leikhluta, seinni hálfleikurinn var svona eins og gerist í leik þar sem er svona mikill munur.“
„Það er staðreynd að við gefumst ekkert upp. Við ætlum að reyna að nýta þessa tvo leiki til að vera betri í körfu og hugsa fyrst og síðast um að vinna okkar leiki,“ sagði Einar Árni um möguleikana á úrslitakeppninni, en liðið þarf að vinna sína tvo síðustu leiki og treysta á að Stjarnan tapi báðum leikjum sínum.
„Við vorum fyrst og fremst að hugsa um að spila góðan körfubolta og mér fannst við gera það á mörgum tímum í dag,“ sagði Einar Árni Jóhannsson.

„Þetta var bara dapurt, Þórs liðið var miku betra,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar eftir leikinn.
Viðar eyddi leiknum uppi í áhorfendastúku eftir að hafa verið dæmdur í leikbann fyrir að gefa Herði Axel Vilhjálmssyni olnbogaskot í leik Keflavíkur og Hattar á dögunum.
„Ég hefði engu breytt hérna í dag þegar hauslausir menn í svörtum búningum nenna ekki að spila vörn. “
„Við spiluðum fjórar, fimm mínútur eftir plani en svo fara menn bara að hugsa um rassgatið á sjálfum sér og nenna ekki að spila vörn og fara út úr plani. Menn læra vonandi af því bara,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson.