Áætlað hefur verið að yfir tvöhundruðþúsund Bandaríkjamenn, hermenn og fjölskyldur þeirra, hafi dvalið á Íslandi um lengri eða skemmri tíma meðan hér var staðsettur bandarískur her.

„Eldri menn sem hafa verið hér staðsettir, bandarískir hermenn, hafa komið hér mikið til að kíkja á okkur. Og vildu fá að fara aftur inn í klúbbinn svona til þess að sjá þetta aftur,” sagði Ásbjörn Pálsson, framkvæmdastjóri Menu-veitinga.
Blokk, sem áður hýsti sveit landgönguliða, er nú Base-hótel og þangað koma stundum fyrrverandi hermenn.
„Ég fékk einu sinni einn, sem var meira að segja í herbergi 309, sem við erum með hérna á þriðju hæðinni. Og hann bað um að fá að kíkja á það. Mér fannst það alveg æðislegt. Hann man og sagði mér allskonar sögur frá þessum tíma,” sagði Jónatan Ægir Guðmundsson, móttökustjóri Base-hótels.

Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, sem er til húsa í fyrrum unglingaskóla Varnarliðsins, segir að í fyrra hafi komið bandarísk kona ásamt eiginmanni og tveimur börnum. Hún hafi fengið að skoða skólann og fundið gamla skápinn sinn, sem hún sýndi börnum sínum stolt: „Here was mammy's locker.”
Fyrrverandi nemendur halda hópinn í gegnum Facebook-síðu, sem Keilismenn fóðra á ljósmyndum, en Hjálmar segir að þeir hugsi mjög hlýtt til Íslands.

Friðþór Eydal, blaðafulltrúi Varnarliðsins síðustu 23 ár þess á Íslandi, var leiðsögumaður um svæðið í þættinum „Um land allt”.
Friðþór rifjaði meðal annars upp sögu frá þeim tíma þegar flugvélar komust ekki yfir Atlantshafið án millilendingar, áður en þotuöldin gekk í garð. Þá rákust menn stundum á fræga gesti í flugstöðinni. Þannig hafi Vestfirðingur einn, sem vann á Vellinum, séð mann sem hann kannaðist eitthvað við og hélt að væri að vestan. Þar var þá kominn kvikmyndaleikarinn Humphrey Bogart.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: