Innlent

Lægðin missti af kaldasta loftinu

Birgir Olgeirsson skrifar
Búið er að loka veginum um Kjalarnes og Mosfellsheiði vegna veðurs.
Búið er að loka veginum um Kjalarnes og Mosfellsheiði vegna veðurs. vísir/eyþór
Lægðin sem gengur nú yfir landið nær fullum þroska á næstu klukkutímum en Trausti Jónsson veðurfræðingur segir á bloggi sínu að hún hafi misst af kaldasta loftinu og verði því líklega ekki eins skæð og hún hefði getað orðið. 

Trausti rýndi í gervihnattarmynd í grein sem hann birti í gærkvöldi þar sem sjá má myndun lægðarinnar suðvestur í hafi sem gengur yfir landið þessa stundina. Trausti sagði að sú lægð myndi líklegast missa af kaldasta loftinu og ekki verða jafn skæð og hún hefði getað orðið, það loft haldist við Suður-Grænland og vert sé að þakka fyrir það.

 „Við fáum að vísu þetta loft yfir okkur síðar - aðra nótt og á fimmtudag - en hálfgert brotajárn ekki líklegt til stórræða,“ segir Trausti. Hann segir enn eitt illviðrið væntanlegt á föstudag sem sé í bígerð yfir vötnunum miklu á landamærum Kanada og Bandaríkjanna.

„Og á enn möguleika á að verða verra og langvinnara heldur en það sem við höfum verið að fjalla um hér,“ segir Trausti.  

Vísir ræddi við veðurfræðing á Veðurstofu Íslands fyrr í morgun sem sagði að veðrið verði hvað verst á höfuðborgarsvæðinu á milli 9 og 10 í dag og engin ástæða sé til annars en að spár gangi eftir. Búast má við að lægðin sem er yfir landinu núna verði að mestu farin hjá um hádegi. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×