Handbolti

Sigur, tap og jafntefli hjá Íslendingunum í Þýskalandi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Alfreð líflegur sem fyrr á hliðarlínunni.
Alfreð líflegur sem fyrr á hliðarlínunni. vísir/getty
Íslensku þjálfararnir í þýsku Bundesligunni í handbolta riðu ekki feitum hesti í kvöld.

Erlangen undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar tapaði síðasta leik sínum í deildinni fyrir leik kvöldsins gegn Lemgo á útivelli. Eftir að staðan var 2-2 að fimm mínútum lokið skoraði Lemgo næstu sex mörk og komst í 8-2.

Eftir það var Erlangen alltaf að elta. Gestirnir náðu þó að jafna leikinn þegar rúmar 12 mínútur voru eftir af leiknum. Eftir það var leikurinn stál í stál og endaði jafn, 24-24.

Alfreð Gíslason og lærisveinar í Kiel tóku á móti Wetzlar. Svipaða sögu má segja um byrjun leiks Kiel og Erlangen. Á 12 mínútum fór staðan úr 2-2 í 3-9 fyrir Wetzlar. Hálfleikstölur voru 9-12 fyrir gestina.

Kiel náði hins vegar aldrei að jafna leikinn aftur, þrátt fyrir að hafa komist mjög nálægt því, og þurfti að sætta sig við eins marks tap, 25-26.

Rúnar Kárason náði ekki að komast á blað í góðum sigri Hannover-Burgdorf á Stuttgart. Leikurinn var jafn til að byrja með og var tveggja marka munur í hálfleik, 13-15.

Gestirnir frá Hannover komust hægt og rólega í meiri forystu þegar leið á seinni hálfleikinn og fór svo að lokum að Stuttgart átti ekki möguleika á sigri, lokatölur 26-33.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×