Erlent

Forsætisráðherra Póllands segir gyðinga hafa verið meðal gerenda í helförinni

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands.
Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands. Vísir/EPA
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hefur gagnrýnt Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, harðlega fyrir ummæli sem sá síðarnefndi lét falla á öryggisráðstefnu í Munchen. Þar sagði Morawiecki að gyðingar hefðu verið meðal gerenda í útrýmingarherferð Nasista gegn gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni.

Netanyahu sagði ummælin svívirðileg og að þau sýndu fram á vanþekkingu á mannkynssögunni.

Í lok janúar samþykkti pólska þingið frumvarp sem gerir það ólöglegt að saka pólska ríkið eða pólsku þjóðina um að hafa tekið þátt í glæpum Nasista. Ummælin umdeildu lét Mateusz Morawiecki falla þegar ísraelskur blaðamaður spurði hvort þeir sem gæfu slíkt í skyn yrðu skilgreindir sem glæpamenn.

„Það er mjög mikilvægt að skilja, að sjálfsögðu, verður þetta ekki refsivert, verður ekki álitinn glæpamaður fyrir að segja að það hafi verið pólskir gerendur, eins og það voru gerendur sem voru gyðingar, að það hafi verið rússneskir gerendur, líkt og það voru úkraínskir... það voru ekki einungis þýskir gerendur.“

Hin nýju lög hafa vakið mikla reiði yfirvalda í Ísrael, Netanyahu segir að þau séu tilraun til að endurskrifa söguna og afneita Helförinni. Ísraelskir ráðamenn ætla í kjölfarið að taka til endurskoðunar lög Ísraels um afneitun við Helförinni. Ef frumvarpið nær fram að ganga gætu þeir sem afneita eða gera lítið úr hlut þeirra sem aðstoðuðu Nasista við útrýmingu gyðinga, þurft að sæta fangelsi í allt að fimm ár.


Tengdar fréttir

Ísraelar segja Pólverja afneita Helförinni

Ólöglegt verður að segja Pólverja meðseka í helförinni. Ísraelar segja að um sé að ræða Helfarar­afneitun og afbökun sannleikans. Pólska ríkisstjórnin er gáttuð á viðbrögðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×