Viðskipti innlent

Meirihluti landsmanna með aðild að Costco

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mikil röð var fyrstu dagana fyrir utan verslun Costco í Kauptúni á síðasta ári
Mikil röð var fyrstu dagana fyrir utan verslun Costco í Kauptúni á síðasta ári Vísir/eyþór
71 prósent landsmanna er með Costco-aðildarkort samkvæmt nýrri könnun MMR. Stuðningsmenn Miðflokksins eru líklegri en aðrir til þess að vera með aðild að Costco.

MMR framkvæmdi könnuna á dögunum 25. til 30. janúar og var heildarfjöldi svarenda 928 einstaklingar, 18 ára eða eldri. Voru þeir spurðir að því hvort að þeir væru með aðildarkort og hversu líklegt væri að viðkomandi myndi endurnýja aðildina, en aðild að Costco gildir í eitt ár í senn.

Íslendingar í aldurshópnum 30-49 ára eru hvað líklegastir til að vera með Costco aðildarkort eða 80 prósent, samanborið við 60 prósent þeirra í elsta aldurshópnum(68 ára og eldri) og 58 prósent í yngsta aldurshópnum (18-29 ára). Íslendingar í aldurshópnum 30-49 ára eru jafnframt líklegri en aðrir til að endurnýja aðildina.



Niðurstöður könnunarinnar.Mynd/MMR
Af þeim sem kváðust vera með Costco aðildarkort hugðust 60 prósent endurnýja kortið þegar þar að kæmi en 35 prósent eru óákveðin og sex prósent hyggjast ekki endurnýja aðild.

Töluvert fleiri íbúar höfuðborgasvæðisins, eða 77 prósent, eru með Costco aðildarkort heldur en íbúar landsbyggðarinnar, 60 prósent. Hlutfall þeirra sem ætla að endurnýja aðildina er þó nokkuð jafnt eða 60 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins og 59 prósent íbúa landsbyggðarinnar.

Stuðningsfólk Miðflokksins, 81 prósent, reyndist líklegast til að vera með Costco aðildarkort en stuðningsfólk Framsóknarflokks, 59 prósent og Vinstri grænna, 60 prósent, reyndist ólíklegra en stuðningsfók annarra flokka til að vera með Costco aðildarkort.

Jafnframt er stuðningsfólk Framsóknarflokksins, 47 prósent og Vinstri grænna, 54 prósent, ólíklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að endurnýja aðildina.

Niðurstöður könnunarinnar í heild sinniMynd/MMR.

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×