Haukar eru með tveggja stiga forskot á toppi Domino´s deild karla í körfubolta eftir sigur á Íslandsmeisturum KR í gær. Frábært gengi liðsins í innbyrðisleikjum toppliðanna vekur mikla athygli og þá ekki síst frammistaða eins leikmanns í þessum leikjum.
Bandaríkjamaðurinn Paul Anthony Jones skoraði aðeins 9 stig í stórsigri á Njarðvík fyrir helgi. Haukarnir þurftu ekki á honum að halda í þeim leik en þeir þurftu á honum að halda á Ásvöllum í gærkvöldi.
Paul Jones brást ekki sínum mönnum ekki frekar en í leikjum á móti bestu liðum Domino´s deildarinnar í vetur. Hann skoraði 35 stig í gærkvöldi og hitti úr 16 af 22 skotum sínum. Það gerir 73 prósent skotnýtingu.
Haukar lögðu með sigrinum grunninn að deildarmeistaratitli og þetta var besti leikur Jones í vetur þegar kemur að stigaskori (35 stig) og framlagi (37 stig).
Jones hefur hinsvegar alltaf verið sjóðandi heitur á móti bestu liðum deildarinnar. Hann er með 22 stig í leik og 69 prósent skotnýtingu á móti þeim. Haukaliðið hefur líka unnið 4 af þessum fimm leikjum þar af þá fjóra síðustu og ekki síst vegna framlags Jones.
Paul Jones hefur hitt úr 56 prósent eða betur í öllum leikjum sínum á móti efstu liðum deildarinnar eða liðunum sem eru að keppa við Hauka um deildarmeistaratitilinn. Það eru lið ÍR, Tindastóls og KR. Hann er með betri en 66 prósent nýtingu í fjórum þessara leikja.
Hér fyrir neðan má síðan sjá samanburð á tölfræði Jones á móti topp 4 annarsvegar og botn 8 hinsvegar.
Gerir mest á móti bestu liðum Domino´s deildarinnar.
Paul Anthony Jones á móti bestu liðunum
(ÍR, Tindastóll og KR)
5 leikir (4 sigurleikir - 1 tap)
22,0 stig í leik
69,1 prósent skotnýting
---
Paul Anthony Jones á móti hinum átta liðunum í deildinni
(Njarðvík, Grindavík, Stjarnan, Keflavík, Þór Þ., Valur, Þór Ak. og Höttur)
14 leikir (11 sigurleikir - 3 töp)
17,1 stig í leik
55,7% skotnýting
Alltaf sjóðandi heitur á móti bestu liðum deildarinnar
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið


„Nálguðumst leikinn vitlaust“
Fótbolti


Læti fyrir leik í Póllandi
Fótbolti


„Ég set spurningarmerki við þennan tímapunkt“
Íslenski boltinn

United niðurlægt í Malasíu
Enski boltinn


