Handbolti

Alfreð: Takk Dagur Sigurðsson, ég veit hvaðan orðrómurinn kemur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Framtíð Christian Prokop sem þjálfara þýska handboltalandsliðsins ræðst í dag en Alfreð Gíslason hefur verið orðaður við starfið. Kiel kannast þó ekkert við að hafa heyrt í þýska handboltasambandinu og Alfreð sjálfur gerir grín að öllu fjaðrafokinu.

Það er aðeins eitt ár síðan að Christian Prokop tók við þýska landsliðinu af Degi Sigurðssyni en árangur liðsins á EM í Króatíu olli miklum vonbrigðum. Liðið mætti sem Evrópumeistari en fór heim sem níunda besta handboltalandslið Evrópu.

Mikið hefur verið skrafað og skeggrætt um komu Alfreð Gíslasonar að þýska landsliðinu en samningur Alfreðs og Kiel rennur ekki út fyrr en árið 2019.

THW Kiel setti frétt um málið inn á heimasíðu sína í dag þar sem kemur fram að það búast flestir við því að Christian Prokop verði látinn fara.

Í fréttinni á heimasíðu Kiel kemur ýmislegt fram þar á meðal að Kiel hafi ekki fengið fyrirspurn frá þýska handboltasambandinu og því sér ekkert til í því að þýska sambandið sé búið að gera samning við Alfreð Gíslason.





Samingur Alfreðs og Kiel er í gildi og því þyrfti þýska sambandið alltaf að ná samkomulagi við Kiel eigi Alfreð að taka við þýska landsliðinu.

Alfreð sjálfur grínaðist með orðróminn á hliðarlínunni í leik á móti Álaborg í Meistaradeildinni um helgina.

„Takk Dagur Sigurðsson, ég veit hvaðan orðrómurinn kemur,“ sagði Alfreð og glotti á hliðarlínunni.

Það virðist vera sem að ummæli Dags Sigurðssonar í Seinni bylgjunni á dögunum hafi komið sögusögnunum um Alfreð á fulla ferð í Þýskalandi.

Christian Prokop var með fimm ára samning við því er það mikið fyrirtæki fyrir þýska sambandið að láta hann fara. Hinsvegar hefur það komið fram í þýskum fjölmiðlum að nokkrir leikmenn landsliðsins hafi hótað því að hætta að gefa kost á sér haldi Christian Prokop áfram með liðið.

Þýska sambandið borgaði 500 þúsund evrur til að losa Christian Prokop frá SC DHfK Leipzig og það gæti líka verið dýrt að kaupa upp samninginn hans sem rennur ekki út fyrr en árið 2022.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×