„Nældi mér í unnustu rétt áður en nýja árið gekk í garð. Við erum mjög hamingjusöm og ástfangin, og kettirnir okkar eru einnig yfir sig ánægðir,“ skrifaði Sheeran og hengdi mynd af sér og nýbakaðri unnustunni við færsluna, sem sjá má neðst í fréttinni.
Sheeran og Seaborn voru vinir og skólasystkini í nokkur ár áður en þau byrjuðu saman árið 2015. Þá fór Seaborn í heimsreisu með unnusta sínum þegar hann tók sér ársfrí frá tónlistinni árið 2016.
Sheeran hefur verið tíðrætt um ástina í viðtölum upp á síðkastið og sagðist nýlega tilbúinn til þess að eignast börn. Hann hefur jafnframt gert það gott í tónlistinni undanfarin misseri og er tilnefndur í fjórum flokkum á Brit-verðlaunahátíðinni sem haldin verður í febrúar.
Cherry Seaborn er atvinnukona í hokkí og spilaði með U21-árs-liði Englands á Evrópumeistaramótinu árið 2012 þar sem liðið hreppti bronsverðlaun.