Stórefla þarf alla innviði flugsamgangna. Uppsöfnuð viðhaldsþörf annarra flugvalla og lendingarstaða en Keflavíkurflugvallar nemur tveimur 2 til þremur milljörðum króna
Í byrjun janúar hóf bresk ferðaskrifstofa að fljúga til Akureyrar og eru 14 flugvélar áætlaðar til Akureyrar fram í miðjan marsmánuð. Mikið hefur verið rætt um mikilvægi þess að dreifa ferðamönnum um landið sem og að lengja tímabil ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni. Tvisvar hefur það gerst að vélarnar hafa þurft að hverfa frá Akureyrarflugvelli og lenda í Keflavík.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir Isavia hafa haft þá stefnu að stækka Keflavíkurflugvöll á meðan stefnuna hafi skort í uppbyggingu annarra flugvalla.
„Já, ég vil halda því fram að það hafi skort stefnu,“ segir Sigurður Ingi.
SAF segir í ályktun sinni að mikilvægt sé að ráðast í að stækka flughlað og flugstöðina á Akureyri til að hægt sé að sinna millilandaflugi og þjónusta flugfarþega með viðunandi hætti. Sigurður Ingi tekur í sama streng.
„Sóknarfærin sem felast í því að opna fleiri hlið inn í landið eins og nú er að gerast kalla á uppbyggingu á Akureyri alveg eins og eftirspurnin í Keflavík kallaði á uppbyggingu þar. Þetta er það sem við erum að kortleggja,“ bætir Sigurður Ingi við.
Að mati samgönguráðherra er uppsöfnuð viðhaldsþörf mikil. „Samgöngur í heild sinni, og þá sérstaklega vegina og flugið, hefur skort fjármagn í mörg ár. Við höfum aukið þetta síðastliðin tvö ár en uppsöfnuð þörf er orðin nokkuð mikil.“