Mosfellsheiði hefur verið lokað vegna veðurs og eru björgunarsveitir nú að störfum þar. Þar sitja tvær rútur fastar þvert á veginn og hindra umferð yfir heiðina. Þá er einnig búið að loka Lyngdalsheiði, Hellisheiði og Þrengslum vegna veðurs.
Rúmlega fimmtíu farþegar eru um borð í rútunum og vinna björgunarsveitarmenn meðal annars að því að flytja farþega úr rútunum niður af heiðinni og kanna ástand annarra smærri bíla sem eru í vanda á heiðinni.
Um sjötíu björgunarsveitarmenn eru að sinna verkefnum tengdum veðrinu sem gengur nú yfir svæðið.
Á fjórða tímanum í dag voru boðaðar út björgunarsveitir frá Laugarvatni, Grímsnesi, Eyrabakka, Selfossi og Reykjavík.
Nú síðdegis var Hellisheiði og Þrengslum lokað. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni verða 15 til 20 metrar á sekúndu á Hellisheiðinni og getur orðið mjög blint. Lyngdalsheiði er einnig lokuð.
Lokanir vegna veðurs: Tvær rútur þvera veginn á Mosfellsheiði
Þórdís Valsdóttir skrifar
