Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag þar sem haft er eftir skrifstofustjóra ríkissáttasemjara að skróp flugfélagsins sé fordæmalaust. „Það hefur aldrei gerst í sögu embættisins sem stofnað var 1980 að deiluaðili mæti ekki til boðaðs sáttafundar,“ segir Elísabet S. Ólafsdóttir í samtali við blaðið.
Sjá einnig: Skrá áhafnir úti og greiða laun undir lögboðnu lágmarki
Þar er jafnframt rætt við deildarstjóra lögfræðideildar Alþýðusambandsins, en ASÍ kemur fram fyrir hönd flugfreyjufélagsins. Bendir hann á að ríkissáttasemjari hafi „ekkert lagalegt úrræði til þess að draga Primera Air að samningaborðinu,“ þó svo að félaginu sé skylt samkvæmt lögum að mæta. Því sé öðruvísi farið í sumum grannríkjum okkar þar sem sáttasemjari getur gefið út eitthvað í líkingu við handtökuskipun.
Deildarstjórinn segir ennfremur í samtali við Morgunblaðið að Primera Air hafi lengi litið svo að flugfélaginu bæri „bæri engin skylda til þess að semja við verkalýðsfélög hér á landi varðandi flugliða,“ þrátt fyrir að lögheimilisfesti launþega eigi að ráða hvaða kjarasamningar gilda.
Félagsdómur dæmdi verkfall flugfreyjufélagsins vegna flugliða hjá Primera Air ólöglegt en það átti að hefjast 24. nóvember. Nú er unnið að því að blása til allsherjaratkvæðagreiðslu um boðun nýrrar vinnustöðvunar.
Hér að neðan má sjá umfjöllun kvöldfrétta Stöðvar 2 frá því í maí á síðasta ári um baráttu flugliða við Primera Air.