Þegar farið er um sveitir landsins má sjá skurði nánast við hvern bæ en bændur grófu þá til að ræsa fram land, kallaðir framræsluskurðir til að veita vatni frá tilteknum svæðum og þá má líka víða sjá áveituskurði en tilgangur þeirra er að veita vatni að tilteknum svæðum. Landgræðslustjóri hvetur nú til þess að mokað verði ofan í skurði landsins til að draga úr losun koltvísýrings.

Árni segir að bændur noti ekki nema 15 til 20% af framræstu votlendi til ræktunar, það þurfi að endurskipuleggja skurðakerfin og fylla í skurði sem mun leiða til þess að það mun bindast aukið kolefni.
En er þetta raunhæf framkvæmd ?
„Já, það tel ég vera. Þetta er auðvitað fyrst og fremst háð því að landeigendur spili með og séu tilbúnir í þessa aðgerð,“ segir Árni.
En þá hlýtur maður að spyrja; af hverju voru bændur að grafa alla þessa skurði á sínum tíma?
„Menn fóru hreinlega hamförum og menn áttuðu sig ekkert á því á þeim tíma hverjar yrðu afleiðingarnar. Menn voru ekki farnir að tala um þessar loftslagsbreytingar fyrir fimmtíu árum þegar menn voru að grafa þessa skurði.“
Það er ekki bara landgræðslustjóri og starfsmenn Landgræðslunnar sem vilja láta grafa ofan í skurðina, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti landsins hefur sett það mál á oddinn enda segir hún nauðsynlegt að endurheimta þetta land.