„Auðvitað höfum við gríðarlegar áhyggjur af þessu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra aðspurður um yfirvofandi verkfall flugvirkja sem hefjast á snemma á morgun takist ekki að semja í tæka tíð.
Samninganefndir flugvirkja og Samtaka atvinnulífsins sitja nú á fundi og reyna að ná samningum áður en verkfallið skellur á en það á að hefjast klukkan sex á morgun. Fyrirséð er að það muni hafa áhrif á tugþúsundir farþega.
Fréttablaðið greindi frá því fyrr í vikunni að flugvirkjar færu fram á tuttugu prósenta launahækkun í viðræðunum. Segir Sigurður Ingi að slík krafa verði að teljast nokkuð brött.
„Ef það er rétt að menn séu að tala um tuttugu prósent hækkanir á einu ári þá er það auðvitað langt umfram þennan efnahagslega stöðugleika og þessa framtíð launastrúktúrsins í landinu,“ sagði Sigurður Ingi í Víglínunni á Stöð 2 í dag.
Sigurður Ingi hefur gefið út að það sé ekki á dagskrá að setja lög til þess að koma í veg fyrir verkfallið. Ábyrgð deiluaðila sé þó skýr og hann treystir þeim til þess að komast að farsælli niðurstöðu.
„Ég er bara sannfærður um það að þessir aðilar átti sig á sinni ábyrgð að það sé mikilvægt að hér á Íslandi geti verið efnahagslegur stöðugleiki og að allar stéttir landsins, þar með talið þær sem er í launadeilu í dag, geti unað viðunandi við sitt.“
Ríkisstjórnin með „gríðarlegar áhyggjur“ af yfirvofandi verkfalli

Tengdar fréttir

Krafa flugvirkja er 20% launahækkun
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir kröfur flugvirkja margfeldi af því svigrúmi sem er til staðar.

Réttindi farþega margvísleg ef til verkfalls kemur
Ef flug tefjast eða þeim er aflýst eiga farþegar rétt á því að flugfélagið verði þeim út um gistingu og fleira ef til verkfalls flugvirkja kemur.

Afbókanir berast vegna verkfallshótana
"Verkfallshótun flugvirkja hefur þegar valdið miklum óróa meðal fjölmargra fyrirtækja í ferðaþjónustu og hafa afbókanir þegar borist,“ segir í ályktun frá stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar. Flugvirkjar hafa boðað til verkfalls frá og með morgundeginum, takist ekki að semja.