„Auðvitað höfum við gríðarlegar áhyggjur af þessu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra aðspurður um yfirvofandi verkfall flugvirkja sem hefjast á snemma á morgun takist ekki að semja í tæka tíð.
Samninganefndir flugvirkja og Samtaka atvinnulífsins sitja nú á fundi og reyna að ná samningum áður en verkfallið skellur á en það á að hefjast klukkan sex á morgun. Fyrirséð er að það muni hafa áhrif á tugþúsundir farþega.
Fréttablaðið greindi frá því fyrr í vikunni að flugvirkjar færu fram á tuttugu prósenta launahækkun í viðræðunum. Segir Sigurður Ingi að slík krafa verði að teljast nokkuð brött.
„Ef það er rétt að menn séu að tala um tuttugu prósent hækkanir á einu ári þá er það auðvitað langt umfram þennan efnahagslega stöðugleika og þessa framtíð launastrúktúrsins í landinu,“ sagði Sigurður Ingi í Víglínunni á Stöð 2 í dag.
Sigurður Ingi hefur gefið út að það sé ekki á dagskrá að setja lög til þess að koma í veg fyrir verkfallið. Ábyrgð deiluaðila sé þó skýr og hann treystir þeim til þess að komast að farsælli niðurstöðu.
„Ég er bara sannfærður um það að þessir aðilar átti sig á sinni ábyrgð að það sé mikilvægt að hér á Íslandi geti verið efnahagslegur stöðugleiki og að allar stéttir landsins, þar með talið þær sem er í launadeilu í dag, geti unað viðunandi við sitt.“
