Óskar Einarsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands, segir að það sé verið að taka hænuskref í rétta átt í kjaradeilum Flugvirkjafélags Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Icelandair. Fundur hófst hjá Ríkissáttasemjara klukkan fimm í dag og stendur fundurinn enn yfir.
Óskar segist ekki geta sagt til um hvort fundað verði langt fram eftir nóttu eða hvort verkfallsaðgerðir haldi áfram á morgun. „Það er verið að taka hænuskref í rétt átt. Við reynum að gera það sem við getum til að gera stöðuna betri en hún er,“ segir Óskar en vill ekki gefa meira upp að svo stöddu.
Eins og komið hefur fram á Vísi í dag hófst verkfall flugvirkja hjá Icelandair klukkan sex í morgun eftir að upp úr slitnaði í viðræðum deiluaðila í nótt. Ennþá var langt á milli deiluaðila þegar fundur hófst klukkan fimm í dag.
Um tuttugu flugferðum félagsins var aflýst í dag og öðrum seinkað vegna verkfallsins.
