Innlent

Sóttu slasaðan sjómann í slæmu veðri

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
TF-LIF sótti sjómanninn slasaða.
TF-LIF sótti sjómanninn slasaða. Vísir/Ernir
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst laust fyrir klukkan tvö í nótt beiðni frá Neyðarlínu um aðstoð þyrlu Gæslunnar vegna sjómanns sem slasaðist um borð í fiskiskipi undan suðurströnd landsins.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni hafði skipið siglt til Vestmannaeyja. Læknirinn þar komst að þeirri niðurstöðu, í samráði við þyrlulækni Gæslunnar, að réttast væri að flytja manninn til Reykjavíkur.

 

Ekki var unnt að senda sjúkraflugvél til Eyja vegna veðurs og því sótti TF-LIF hinn slasaða.

„Þyrlan fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli upp úr klukkan hálfþrjú og lenti á flugvellinum í Vestmannaeyjum um fjörutíu mínútum síðar. Þar var stormur, mikil úrkoma og skýjahæðin aðeins um 500 fet. Eftir að sjúklingurinn hafði verið búinn undir flutning lagði TF-LIF aftur af stað til Reykjavíkur um hálffjögurleytið. Þyrlan lenti svo á Reykjavíkurflugvelli klukkan 04:21 þar sem sjúkrabíll beið og flutti manninn á sjúkrahús,“ segir í tilkynningu frá Gæslunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×