Sjö af níu dómurum Hæstarétts Bandaríkjanna afléttu í dag lögbanni sem alríkisdómarar höfðu sett á ferðabann forsetans. Hæstaréttardómararnir Ruth Bader Ginsburg og Sonia Sotomayor hefðu hins vegar leyft lögbanni lægri dómstiganna að gilda áfram, að því er fram kemur í frétt BBC.
Ferðabannið nær nú til ríkisborgara frá Tsjad, Íran, Libíu, Sómalíu, Sýrlandi og Jemen, þar sem meirihluti ríkisborgaranna eru múslimar. Þá gildir það einnig um ríkisborgara Norður-Kóreu og ákveðna embættismenn frá Venesúela.

Ferðabannið mun þó verða til umfjöllunar fyrir dómstólum í Virginíu og Kaliforníu í vikunni. Þar verður úr því skorið hvort bannið brjóti í bága við lög.
Ferðabann Trumps hefur verið mjög umdeilt síðan það leit fyrst dagsins ljós í janúar á þessu ári. Fyrsta útgáfa bannsins var fljótlega kæfð á lægri dómstigum en önnur útgáfan tók að hluta til gildi í sumar.
Í kosningabaráttunni í fyrra lofaði Trump því að koma í veg fyrir að múslimar ferðuðust til Bandaríkjanna. Forsetinn hefur verið gagnrýndur fyrir að setja ferðabannið fram sem lið í því kosningaloforði. Að baki banninu séu því hreinir og beinir fordómar í garð Múslima.
Uppfært 5.12.2017 Á fréttinni mátti upphaflega skilja að Hæstiréttur Bandaríkjanna hefði staðfest lögmæti ferðabannsins. Ákvörðun dómsins laut hins vegar lögbanni sem kom í veg fyrir að bannið tæki gildi á meðan það er til umfjöllunar á lægri dómstigum. Heimilaði hæstirétturinn að bannið tæki gildi strax.