Erlent

Orðrómurinn um kaupandann líklega á rökum reistur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Salvator Mundi, dýrasta málverk sögunnar.
Salvator Mundi, dýrasta málverk sögunnar. Vísir/Getty
Dýrasta málverk sögunnar, sem talið er vera eftir Leonardo da Vinci, er nú á leið til Abu Dhabi í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum.

Hið glænýja og fokdýra listasafn borgarinnar, Louvre Abu Dhabi, greindi frá því á Twitter-síðu sinni í gær að verkið væri „á leiðinni“ til safnsins en hefur ekki sagt til um hvort það verði þar til sýnis eður ei.

Fjölmiðlar ytra telja nú ljóst að orðrómurinn um uppboðið hafi verið réttur - málverkið hafi verið slegið vellauðugum olíufursta við Persaflóa. New York Times hefur meðal annars sagt kaupandanna vera prinsinn Bader bin Abdullah bin Mohammed bin Farhan al-Saud og vísaði í gögn sem blaðið hafði undir höndum.

Uppboðshúsið Christie's hefur þvertekið fyrir að nafngreina kaupandann.

Vísir greindi frá uppboðinu í New York á sínum tíma. Eftir um 20 mínútna þref var málverkið, sem ber nafnið Salvator Mundi eða Frelsari heimsins, selt fyrir 450 milljónir bandaríkjadala - rúmlega 46 milljarða íslenskra króna. Er því um að ræða dýrasta málverk sögunnar.

Sjá einnig: Dýrasta málverk sögunnar er kannski eftir Leonardo da Vinci

Skiptar skoðanir eru innan listaheimsins um hvort að verkið sé raunverulega eftir da Vinci. Uppboðshúsið er þó sannfært um að verkið sé eftir ítalska meistarann og segir það „stærstu listauppgötvun 20. aldarinnar.“

Safnið Louvre Abu Dhabi opnaði fyrr í þessum mánuði eftir að hafa verið um 10 ár í byggingu. Framkvæmdin kostaði ríflega 140 milljarða íslenskra króna.

Þar má nú sjá rúmlega 900 listmuni, þar af eru 300 sem safnið hefur fengið lánað frá systursafni sínu í Frakklandi. Safnið í Abu Dhabi greiðir Louvre-safninu í París milljarða króna fyrir lánið á mununum - sem og fyrir að mega nota nafn hins heimsfræga listasafns.


Tengdar fréttir

Svona fara 46 milljarðar á uppboði

Verkið Salvador Mundi, sem talið er vera eftir Leonardo da Vinci, varð í síðustu viku dýrasta málverk sögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×