Strákarnir í landsliðinu nutu lífsins í Katar í síðustu viku þar sem liðið spilaði tvo vináttuleiki við Tékka og Katar. Liðið fékk mikinn frítíma og fyrir utan að fara á sæþotur út í sólarlagið og jeppaferð um eyðimörkina gripu landsliðsmenn í spilið Beint í mark sem Jóhann Berg Guðmundsson, leikmaður Burnley, gefur út ásamt öðrum fótboltaspekingum.
Spilið barst til Katar og fengu landsliðsmenn að prófa. „Við spiluðum tvisvar. Í fyrra skiptið var einstaklingskeppni þar sem Gylfi vann, sem kom gríðarlega á óvart. Það kom líka töluvert á óvart að Sverrir Ingi rak lestina og var í síðasta sæti,“ segir Jóhann léttur.
Þeir sem reyndu sig í spilinu voru, auk Gylfa og Sverris, Aron Einar landsliðsfyrirliði og Rúrik Gíslason.
Seinni umferðin var svo liðakeppni þar sem úrslitin voru meira eftir bókinni – að sögn Jóhanns.
„Þá voru herbergisfélagar saman í liði. Að sjálfsögðu vorum það við Alfreð sem unnum. Rúrik og Aron voru í neðsta sæti,“ segir Jóhann en bæði hann og Alfreð þykja gríðarlega vel að sér í knattspyrnufróðleik.
„Menn voru gríðarlega ánægðir með spilið og það var löngu kominn tími á svona fótboltaspil þar sem við gætum reynt á fótboltakunnáttu okkar,“ segir Jóhann Berg, landsliðshetja og spilaútgefandi.
Gylfi kom á óvart með þekkingu sinni
