Larry Nassar, fyrrverandi læknir ólympíuliðs Bandaríkjanna í fimleikum, játaði á sig sjö kynferðisárásir fyrir dómi í Michigan í dag. Alls hafa 130 konur, þar á meðal fjöldi fimleikakvenna ólympíuliðsins sakað Nassar um kynferðisofbeldi. Hann á yfir höfði sér að minnsta kosti tuttugu og fimm ára fangelsisvist.
Þekktar fimleikakonur eins og McKayla Maroney, Aly Raisman og Gabby Douglas eru á meðal þeirra sem hafa sakað Nassar um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi. Þannig lýsti Maroney því að Nassar hefði snert hana óeðlilega þegar hún var á unglingsaldri.
Læknirinn gæti verið dæmdur í allt að fjörutíu ára fangelsi á morgun. Hann á einnig yfir höfði sér fangelsisdóma í tveimur öðrum dómsmálum. Þá á enn eftir að ákvarða refsingu yfir honum vegna barnakláms í máli sem hann játaði sekt í fyrr á þessu ári, að því er segir í frétt Washington Post.
„Til allra þeirra sem málið snertir þá þykir mér það hræðilega leitt að þetta var eins og eldspýta sem breyttist í stjórnlausan skógareld,“ sagði Nassar fyrir dómi. Það var í fyrsta skipti sem hann gekkst við ásökunum um að hafa beitt konurnar kynferðislegu ofbeldi.