Innlent

Vilja komast á vinnumarkaðinn

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Í dag fór Hildur Sigurðardóttir í starfskynningu í ísbúðinni Valdís. Hún er ein af 421 manns sem eru með andlegar eða líkamlegar fatlanir, eru á örorkubótum en vilja gjarnan vinna, til dæmis hlutastörf. 

Starskynningin er hluti af Fyrirmyndardeginum á vegum Vinnumálastofnunar sem er haldinn til að kynna fjölbreyttan atvinnuleitendahóp sem hefur einnig sína styrkleika.

Bryndís Theódórsdóttir, verkefnastjóri hjá Vinnumálastofnun, segir 124 gestastarfsmenn hafa tekið þátt í deginum í dag og 120 fyrirtæki.

„Svo förum við í næstu viku og athugum hvernig gekk og reynum auðvitað að veiða störf. Um það snýst þetta," segir hún og jánkar því að einhver hafi fengið vinnu eftir svona starfsþjálfun.

„Eftir daginn okkar í fyrra fengu fjórir vinnu á höfuðborgarsvæðinu," segir Bryndís.

Hildur var búin að læra ýmislegt á eingöngu tveimur tímum og getur vel hugsað sér að vinna í ísbúð. „Þetta er gaman, yndislegt," segir hún en hún myndi vilja vera í hálfu starfi enda mikil félagsvera.

Bryndís segir mikilvægt fyrir alla að vinna. „Þetta er fólk sem vill vinna og það er samfélagsleg ábyrgð að allir geti tekið þátt í samfélaginu," segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×