Upplýsingar um Saipov eru enn að berast en hann var skotinn í kviðinn af lögreglu eftir að hann hljóp um göturnar með loft- og „paintball-byssu“. Hann hefur gengist undir aðgerð og er hann á lífi, en er enn í lífshættu.
Að neðan má sjá Saipov hlaupa um götur New York eftir að hafa ekið bílnum á hjólreiðamennina.
Saipov á að hafa staðist bakgrunnsskoðun Uber þar sem hann starfaði í um sex mánuði. Á hann að hafa keyrt um 1.400 viðskiptavini síðan hann byrjaði.
In NYC, looks like another attack by a very sick and deranged person. Law enforcement is following this closely. NOT IN THE U.S.A.!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) October 31, 2017
Saipov kom til Bandaríkjanna árið 2010 og bjó upphaflega í Ohio, svo Flórída og síðar Paterson í New Jersey.
Í frétt Guardian segir að lögregla hafi enn ekki tjáð sig um ástæður árásarinnar. New York Times greinir frá því að Saipov hafi verið á skrá hjá alríkislögreglunni.
Dilfuza Iskhakova, íbúi í Cincinnati í Ohio, segir að Saipov hafi búið á heimili sínu í nokkra mánuði fyrir sex árum eftir að hann kom til landsins frá Úsbekistan.
„Hann virtist vera fínn náungi, en hann sagði ekki mikið. Hann fór í vinnuna og kom til baka. Hann starfaði í vöruhúsi,“ segir Iskhakova. Hún segir að þau Saipov hafi bæði verið að sækja um varanlegt landvistar- og atvinnuleyfi á þeim tíma er þau bjuggu saman.
Eiginkona og tvö börn
Saipov hefur skráð tvö fyrirtæki á þeim tíma sem hann hefur búið í Bandaríkjunum. Annars vegar Sayf Motors Inc, sem skráð var á heimili Iskhakova í Ohio, og hins vegar Bright Auto LLC sem skráð var á heimilsfang í grennd við Cleveland.
Iskhakova segist síðar hafa misst tengslin við Saipov og taldi hann hafa flutt til Flórída og síðar til New York, og að hann ætti nú eiginkonu og tvö börn.
Samkvæmt opinberum skjölum gekk Saipov að eiga hina nítján ára Nozima Odilova árið 2013, en bæði eru þau fædd í úsbesku höfuðborginni Tashkent.
Sjónarvottar hafa greint frá því að Saipov hafi hrópað „Allahu Akbar“ þegar hann framkvæmdi árásina og þá hafa fjölmiðlar vestra sagt að handskrifaður miði hafi fundist í bílnum þar sem Saipov sver hollustu við hryðjuverkasamtökin ISIS. Lögregla hefur ekki staðfest þetta.
