Innlent

Banaslysið á Öxnadalsheiði: Ók ónýtum bíl á ofsahraða undir áhrifum lyfja

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Slysið varð á Öxnadalsheiði þann 24. júní í fyrra. Myndin er úr Öxnadal en tengist fréttinni að öðru leyti ekki.
Slysið varð á Öxnadalsheiði þann 24. júní í fyrra. Myndin er úr Öxnadal en tengist fréttinni að öðru leyti ekki. Vísir/Vilhelm
Karlmaður á fimmtugsaldri sætir ákæru fyrir manndráp af gáleysi, líkamsmeiðingar af gáleysi og umferðarlagabrot með því að hafa föstudaginn 24. júní í fyrra orðið valdur að þriggja bíla árekstri á Norðurlandsvegi á Öxnadalsheiði þar sem hann ók bíl sínum undir áhrifum deyfandi lyfja.

Málið átti að þingfesta í Héraðsdómi Norðurlands eystra á Akureyri í morgun en þingfestingu var frestað til morguns.

Áreksturinn varð með þeim hætti að maðurinn ók aftan á bíl sem ekið var í sömu átt með þeim afleiðingum að fremri bíllinn kastaðist framan á smárútu sem ekið var í gagnstæða átt. Ökumaður bifreiðarinnar, erlendur karlmaður á sjötugsaldri, lést nær samstundis. Kona á sjötugsaldri, farþegi í smárútunni, hlaut afrifubrot á nærhluta nærkjúku þumals.

Maðurinn virðist hafa verið á allt að 162 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Maðurinn var á ökutæki sem ekki var í notkunarhæfu ástandi vegna ástands hemla í framhjóli, þunnra hemlaklossa í afturhjólum, ryðmyndunar í helmadisk að aftan, ónýts höggdeyfis og vanstilltra lega. Þá var hann án lögboðinna ökuljósa.

Í blóðsýni úr ákærða mældust deyfandi lyf. Annars vegar 10 ng/ml af alprazólam og 0,9 µg/ml af oxazepam.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og verði sviptur ökuréttindum.

Uppfært klukkan 15:40

Í fyrri útgáfu sagði að málið hefði verið þingfest í morgun og var miðað við dagskrá þingsins. Málinu var hins vegar frestað og verður þingfest á morgun, föstudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×