Þórhildur, sem spilar stöðu leikstjórnanda hjá Haukum, fékk þungt högg á höfuðið á 33. mínútu leiksins. Lá hún eftir og huguðu sjúkraþjálfarar beggja liða að líðan hennar.
„Sjúkraþjálfarar beggja liða vildu ekki taka neinn séns. Þeir ætluðu að rétta hana við en þá fékk hún sting upp í haus og ákveðið var að taka enga sénsa með þetta,“ sagði Elías Már Halldórsson, þjálfari Hauka, við Vísi í gær.
Um 45 mínútum eftir slysið var Þórhildur flutt á börum frá Schenkerhöllinni að Ásvöllum í Hafnarfirði.

„Ég get ekki ímyndað mér en það hafi verið annað en vegna anna. Það var klikkað að gera. Það voru 35 útköll sjúkrabíla og rúmlega 20 útköll dælubíla á vaktinni,“ segir Óttar. Vaktin sem um ræðir hófst 19:30 og stóð til klukkan 7:30 í morgun. Reikna megi með því að önnur útköll hafi verið í meiri forgangi á þeim tíma sem slysið varð. Hefur Vísir sent Neyðarlínunni fyrirspurn vegna málsins.
„Þórhildur fór í myndatökur í gær til að taka af allan vafa að það væru ekki frekari áverkar. Það kom allt vel út og hún fékk að fara heim í nótt,“ segir Elías Már í samtali við Vísi í morgun. Þórhildur hafi fengið mikið högg.
„Mér skilst að hún hafi rotast og hún mundi ekkert eftir atvikinu. Hún fékk heilahristing og höggið var augljóslega meira en maður hélt í fyrstu. Hún virðist hafa fengið hné aftan í hnakkann. Hún mun nú fá þann tíma sem hún þarf til þess að jafna sig.“
Reikna má með því að Þórhildur missi í það minnsta af næsta leik Hauka gegn Val á miðvikudaginn. Haukar lögðu ÍBV 26-22 í gærkvöldi og komust með sigrinum upp fyrir ÍBV og í annað sæti deildarinnar.
Uppfært klukkan 11:15
Elva Björnsdóttir, gæða- og varðstofustjóri hjá Neyðarlínunni, segir í samtali við Vísi að rúmlega hálftími hafi liðið frá því að símtal barst og þangað til sjúkraflutningsmenn mættu á svæðið.
Hún útskýrir að starfsmenn Neyðarlínunnar hafi metið málið sem svo að það væri ekki forgangsmál. Annir hafi verið miklar sem útskýri tafir á sjúkrabíl.
„Það er ekkert óeðlilegt við þetta mál nema þetta tekur langan tíma,“ segir Elva. Aðspurð segir hún að vel hefði komið til greina að óska eftir aðstoð björgunarsveita hefði málið verið metið í háum forgangi.