Sara og félagar hennar í evrópska úrvalsliðinu urðu að sætta sig við fjórða og síðasta sætið á eftir Kyrrahafsliðinu, Kanada og Bandaríkjunum. Fyrir ári síðan hjálpaði Sara evrópska liðinu að vinna mótið.
Auk Söru voru í evrópska liðinu Anníe Mist Þórisdóttir og Björgvin Karl Guðmundsson en Ísland átti 75 prósent af evrópska úrvalsliðinu í ár alveg eins og í fyrra þegar Katrín Tanja Davíðsdóttir var í stað Anníe Mist.
Sara segir frá því að hún hafi veikst út í Ástralíu en hún er um leið ekkert að fela það að hún sé mjög vonsvikin með sína frammistöðu.
„Crossfit Invitational fór ekki eins og ég hafði planað og ég er mjög ósátt með mína frammistöðu,“ skrifaði Ragnheiður Sara.
„Ég er ekki sú sem er vön að koma með afsakanir en mér finnst ég þurfi þess núna. Ég kom til Ástralíu fyrir viku síðan og leið vel þegar ég kom. Á öðru kvöldinu þá náði ég mér í einhverja flensu og fékk í framhaldinu mikinn hita,“ skrifaði Sara og hélt áfram.
„Ég fór ekki út rúminu allan þann daginn. Ég missti síðan af fyrstu liðsæfingunni og mátti ekki við því að missa af næstu æfingu þótt að ég væri langt frá því að vera í lagi,“ skrifaði Sara.
„Mér leið tiltölulega vel á keppnisdaginn og hugsaði með mér að það versta væri yfirstaðið og adrenalínið frá keppninni myndi hjálpa mér. Þannig var það hjá mér í DBX mótinu í Dúbæ og ég hélt að það yrði einnig þannig núna,“ skrifaði Sara.
„Ég var í lagi eftir fyrstu greinina en síðan hrundi allt hjá mér. Mér var flökurt, mér svimaði og ég skalf öll. Ég reyndi að komast mér í gegnum þetta en ég var langt frá því að takast það. Þetta bitnaði á liðinu mínu. Ég algjörlega eyðilögð yfir því að hafa brugðist þeim, “ skrifaði Sara en það má sjá alla færslu hennar hér fyrir neðan.