Ármann segir dagskrána svolítið litaða af óperuheiminum. Þar eru verk þriggja tónskálda klassíska og rómantíska tímabilsins. Þau eru Carl Maria von Weber, Mikhail Glinka og Wolfgang Amadeus Mozart. „Þessi tónskáld heyrðu greinilega óperutón í klarinettunni og hrifust af honum,“ segir hann glaðlega.
Auk Ármanns verða Hildigunnur Halldórsdóttir fiðluleikari, Bryndís Pálsdóttir fiðluleikari, Svava Bernharðsdóttir víóluleikari, Sigurður Halldórsson sellóleikari og Ingunn Hildur Hauksdóttir píanóleikari með Camerarctica í kvöld. Þrjú þeirra voru meðal stofnenda hópsins fyrir 25 árum, þau Ármann, Hildigunnur og Sigurður. Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari hefur líka tilheyrt Camerarctica frá fyrstu tíð en spilar ekki með að þessu sinni.

Söngkonan Ingibjörg Guðjónsdóttir er líka Garðbæingur. Hún hefur áður komið fram með Camerarctica og kveðst þekkja vel snillingana þar.
Ingibjörg segir prógramm kvöldsins svakalega flott. Gerir samt ekki mikið úr sínum hlut. „Ég kem bara inn í einu atriði. Hljóðfæraleikararnir bera þessa dagskrá uppi,“ tekur hún fram. „En ég held utan um tónleikaröðina, Þriðjudagsklassík í Garðabæ fyrir menningar-og safnanefnd bæjarins sem stendur á bak við hana. Þetta er í fyrsta sinn sem tónleikarnir eru að hausti til, þeir hafa alltaf verið á vormánuðum en við erum ánægð með þennan árstíma.“
Tónleikarnir hefjast klukkan 20 og standa í um klukkutíma. Aðgangseyrir er 1.500 krónur.