Hann sagðist hins vegar ekki geta kennt Kína um það.
„Hver getur kennt ríki um að nota sér annað ríki í þágu eigin þegna? Kína á hrós skilið,“ sagði Trump á fundi með leiðtogum viðskiptalífsins í Kína og Xi.
Í kosningabaráttunni talaði Trump ítrekað um viðskiptahallan og sakaði hann Kína meðal annars um að „nauðga“ efnahagi Bandaríkjanna og að halda gjaldmiðli sínum niðri til að bæta samkeppnishæfni sína gagnvart Bandaríkjunum og að skattleggja vörur frá Bandaríkjunum úr hófi.
„Við gerum þetta sanngjarnt og það verður frábært fyrir okkur báða. Mér líkar mjög vel við þig. Við eigum frábært samband. Við munum gera stórkostlega hluti, Kína og Bandaríkin,“ sagði Trump.
Trump þakkaði Xi einnig fyrir að bjóða honum og Melaniu Trump til kvöldverðar. Hann sagði að kvöldverðurinn hefði bara átt að vera um hálftíma langur, vegna þess hve þreyttur Trump hefði verið eftir ferðalög sín. Hins vegar hefði kvöldverðurinn staðið yfir í rúma tvo tíma.
„Ég naut hverrar mínútu,“ sagði Trump. Skömmu seinna sagði Trump við Xi að hann væri „mjög sérstakur“ maður.
Xi hét því að opna markaði Kína frekar og gera bandarískum fyrirtækjum auðveldara að koma sér fyrir þar. Eins og AP fréttaveitan bendir á hafa slík loforð hins vegar verið gefin áður, án þess að staðið hafi verið við þau.
Sömuleiðis ræddi Xi samstarf ríkjanna, en ekki á jafn persónulegum nótum. Hann nefndi til dæmis ekki samband forsetanna tveggja.
Hvorugur þeirra svaraði spurningum fjölmiðla, sem Washington Post segir að hafa verið ákveðinn sigur fyrir Xi Jinping. Hann stjórni ríki þar sem hart hefur verið farið fram gegn tjáningarfrelsi og frjálsum fjölmiðlum.
Í grein Politico segir að tónn Trump gagnvart Jinping eigi líklegast eftir að fara öfugt ofan í marga íhaldssama stuðningsmenn hans. Þar á meðal Stephen Bannon, sem hafi ítrekað kallað eftir því að Bandaríkin taki upp strangari stefnu varðandi Kína.