Ófelía er nú flokkuð sem hitabeltisstormur þar sem hún marar yfir hlýjum sjó í sunnanverðu Atlantshafi, allnokkru suðvestur af Asoreyjum í kringum 30. breiddargráðu norður.
Líkön Veðurrannsóknamiðstöðvar Bandaríkjanna (NCAR) benda til þess að stormurinn gæti nálgast styrk fellibyls og stefnt að vestanverðri Evrópu. Sumar mögulegar slóðir færðu storminn upp að ströndum Íslands. Samkvæmt yfirliti Fellibyljamiðstöðvar Bandaríkjanna er mesti samfelldi vindhraðinn í Ófelíu um 22 m/s.
Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur, segir að Ófelía sé lítill hitabeltisstormur og mun veikara fyrirbæri en fellibyljirnir sem gengu yfir Karíbahaf og Bandaríkin í byrjun hausts. Ólíklegt sé að meira verði úr honum. Líklegra sé að leifarnar af honum færu yfir vestanverða Evrópu en Ísland eins og staðan er núna.
Latest models show #Ophelia may pose a rare hurricane-force threat to western Europe this weekend. pic.twitter.com/5uGwbe8PY6
— Eric Holthaus (@EricHolthaus) October 10, 2017
„Spáin næstu daga er að það verði lægðagangur á landinu næstu daga en engin stórviðri sjáanleg í kortinu, að minnsta kosti ekki næstu þrjá eða fjóra daga, eins langt og maður treystir sér til að spá fyrir með einhverri vissu,“ segir Haraldur sem telur alltof snemmt að spá nokkru um ferðir Ófelíu.
Þrátt fyrir að verulega drægi úr styrk storms af þessu tagi þegar hann færðist norður á bóginn segir Haraldur að þeir geti umbreyst í krappar fárviðrislægðir sem valdi tjóni á Íslandi.
Frægt dæmi um þetta sé lægð sem skall á landinu í september árið 1973 og var leifar af fellibylnum Ellen. Algengara sé hins vegar að slíkt gerist á veturna en á haustin.
