Lögreglunni á Suðurnesjum var í vikunni tilkynnt um slagsmál um borð í flugvél á Keflavíkurflugvelli sem átti að fljúga til bandarísku borgarinnar Denver.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að þar hafi reynst vera á ferðinni par sem hafði komið með flugi frá París og einnig látið öllum illum látum um borð í þeirri vél.
„Óskaði flugstjóri fyrrnefndu vélarinnar eftir því að lögregla fjarlægði skötuhjúin úr vélinni sem var gert. Konan hélt áfram ólátunum eftir að komið var inn í flugstöðina og var hún því handtekin vegna ölvunarástands og flutt á lögreglustöð. Þar var hún látin sofa úr sér og síðan tekin af henni skýrsla áður en hún var frjáls ferða sinna,“ segir í tilkynningunni.
Þá þurfti lögregla einnig að fjarlægja tvo karlmenn, er hugðust ferðast með flugi til Vilnius í Litháen vegna mikillar ölvunar.
Slagsmál um borð í vél á leið til Denver
Atli Ísleifsson skrifar
