„Hún óskaði þess að gerast fósturforeldri en því var hafnað af Barnaverndarstofu. Þeirri synjun var skotið til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti síðan synjun Barnaverndarstofu,“ segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu.
Freyja var varaþingmaður fyrir Bjarta framtíð árin 2013-2016 og lagði fram frumvarp árið 2015 um bann við mismunun og réttindi fatlaðs fólks. Einnig barðist hún fyrir innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar fyrir fatlað fólk.

„Hins vegar tel ég líklegt að þessar málsástæður Barnaverndarstofu komi allar fram við meðferð málsins fyrir dómstólum. Þá geta menn lagt mat á þetta. Mér er ekki heimilt að greina frá ástæðum sem lúta að persónulegum þáttum einstaklinga sem varða mál á okkar borðum.“
Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk er rætt um réttindi fatlaðra til fjölskyldulífs. Aðildarríki skulu gera ráðstafanir til að uppræta mismunun gagnvart fötluðu fólki í öllum málum sem lúta að fjölskyldu og foreldrahlutverki á sama hátt og gildir um aðra. Einnig mun jafnræðisregla stjórnarskrárinnar líka verða tekin til skoðunar við meðferð þessa máls.
Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, lögmaður Freyju, segir málið snúast að miklu leyti um réttlæti og jafna stöðu borgaranna.
„Við viljum ekki tjá okkur um málið á þessu stigi að öðru leyti en því að í hnotskurn snýst þetta um það hvort fatlað fólk fái sömu meðferð og sama umsagnarferli og ófatlað fólk,“ segir Sigrún Ingibjörg.