Yfirvöld hafa ekki fundið nein tengsl á milli Paddock og alþjóðlegra hryðjuverkahópa, þrátt fyrir að hryðjuverkasamtökin ISIS hafi í gær lýst yfir ábyrgð á árásinni.
Einhverjir þeirra sem komið að rannsókninni hafa gefið í skyn að Paddock hafi átt við geðræn vandamál að stríða en ekkert hefur fengist staðfest í þeim efnum. Þá eru yfirvöld að reyna að púsla saman fjárhagsstöðu hans til að reyna að komast að hvaða ástæður gætu verið að baki árásinni.

Paddock hóf skothríð upp úr klukkan 22 á sunnudagskvöld að staðartíma, eða snemma á mánudagsmorgni að íslenskum tíma. Hann skaut á mikinn mannfjölda sem staddur var á útitónleikum í Las Vegas, skammt frá Mandalay-hótelinu, en Paddock var í herbergi á 32. hæð hótelsins og skaut þaðan út um glugga á fólkið fyrir neðan.
Lögreglan fann 23 skotvopn inni á hótelherberginu og mikið vopnabúr heima hjá Paddock í bænum Mesquite sem er norðaustur af Las Vegas, alls 19 skotvopn og sprengiefni.
Paddock var í sambúð með konu að nafni Marilou Danley en hún er erlendis og ekki talin tengjast árásinni. Lögreglan vill þó enn ná tali af henni. Árásin hefur komið skyldmennum Paddock algjörlega í opna skjöldu og sagði meðal annars bróðir hans, Eric Paddock, við fjölmiðla í gær að hann væri orðlaus vegna gjörða bróður síns.

Eric sagði þó bróðir hans hafi verið nokkuð auðugan. Hann hafi stundað fjárhættuspil, siglt um á snekkjum og dvalið mikið á hótelum.
Paddock ólst upp ásamt bræðrum sínum hjá einstæðri móður sem sagði þeim að pabbi þeirra væri látinn. Hið rétta er að hann var dæmdur í 20 ára fangelsi árið 1961 fyrir nokkur bankarán. Pabbinn slapp þó úr fangelsi árið 1968 og gerðist bílasali í Oregon.
Annar bróðir Paddock, Patrick, sagði við fjölmiðla hefði flutt mikið þegar þeir bræður voru litlir, frá Iowa til Tucson til suðurhluta Kaliforníu.
Þá sagði Eric að Paddock hefði alls ekki verið mikill byssumaður.
„Að hann hafi átt svona mikið af vopnum það er bara... hvar í fjandanum fékk hann sjálfvirk skotvopn?“ spurði Eric í gær.

Skotvopnalöggjöfin í Nevada-ríki er ein sú frjálslegasta í Bandaríkjunum. Einstaklingar mega bera byssu og þurfa ekki að skrá sig sem byssueigendur. Bakgrunnur fólks er kannaður þegar það kaupir byssu en einstaklingar mega einnig selja hver öðrum byssur.
Eigandi skotvopnaverslunar í Mesquite, heimabæ Paddock, hefur staðfest að hann hafi selt honum þrjár byssur síðastliðið ár, eina skammbyssu og tvo riffla. Öll kaupin voru lögleg og Paddock stóðst bakgrunnstékk sem gert er samkvæmt stöðlum Bandarísku alríkislögreglunnar, FBI.
Byggt á fréttum BBC og New York Times.
Fréttin hefur verið uppfærð þar sem tímasetningar voru ekki réttar í upphaflegri útgáfu fréttarinnar.