Handbolti

Barcelona ætlar að kaupa Aron

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Barcelona hefur samþykkt að kaupa Aron Pálmarsson undan samningi við Veszprém og er kaupverðið talið nema tæpum 87 milljónum króna.

Aron Pálmarsson neitaði að mæta á æfingar ungverska liðsins þegar það hóf æfingar í lok sumars en í byrjun sumars hafði hann gengið frá samningi við Barcelona um að hann gengi í raðir félagsins á næsta ári.

Barcelona hefur frest til 31. október til að loka málinu en þá rennur út frestur til að skrá nýja leikmenn til leiks í Meistaradeild Evrópu.

Mikil meiðsli herja á lið Barcelona og þurftu forráðamenn félagsins því að hafa hraðar hendur. Þeir sendu forráðamönnum Veszprém tilboð undir lok síðustu viku sem ku hafa verið samþykkt munnlega. Það eina sem er eftir er undirritun milli félaganna og þá málið leyst þeirra í millum.

Samkvæmt heimildum íþróttadeildar á Aron eftir að skrifa undir sinn samning við Barcelona en reiknað er með því að það gerist á morgun, mánudag, eða í allra síðasta lagi um miðja viku.

Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×