Íslenska landsliðið í fótbolta getur komist á HM í fótbolta í kvöld í fyrsta sinn í sögunni en strákarnir okkar mæta Kósóvó í lokaumferð undankeppni HM 2018 á Laugardalsvelli klukkan 18.45.
Með sigri fær Ísland farseðilinn til Rússlands en liðið má tapa svo framarlega sem að Króatía og Úkraína gera jafntefli í sínum leik. Það er þó alltaf betra að vinna bara leikinn og hafa þetta öruggt.
Takist Íslandi ætlunarverkið í kvöld verðum við minnsta þjóðin í sögunni sem kemst á HM í fótbolta en á Íslandi búa aðeins 340.000 manns.
Ísland verður reyndar lang minnsta þjóðin sem hefur komist á HM því sú sem á metið núna er Trínidad og Tóbagó. Trínidad komst á HM 2006 í Þýskaland en þar búa 1,3 milljónir eða milljón fleiri en á Íslandi.
Markvörður Tríndad á HM 2006, Shaka Hislop, sem spilaði með Newcastle, West Ham og Portsmouth í ensku úrvalsdeildinni á sínum tíma, heldur svo sannarlega ekki með Íslandi í kvöld því hann vill halda metinu.
Þegar íslenska liðið nálgaðist HM 2014 eftir frábæra undankeppni þar sem strákarnir okkar komust í umspil á móti Króatíu opinberaði Hislop, sem er fótboltasérfræðingur ESPN í dag, að hann vill ekki sjá Ísland á HM.
„Ég vil alls ekki sjá neina þjóð bæta okkar met,“ sagði Hislop og varði svo undankeppnina í mið-Ameríku sem hann sagði vera álíka sterka og undankeppnina í Evrópu.
„Það býr aðeins fjórðungur þeirra sem búa í heimalandi mínu á Íslandi. Ég er samt sem áður ekki sammála að undankeppnin í Evrópu sé eins góð og allir vilja meina. Ísland myndi ekki vinna t.d. Mexíkó,“ sagði Shaka Hislop.

