Veðurstofan spáir „talsverðri eða mikilli“ rigningu á Suðausturlandi og á sunnanverðum Austfjörðum í nótt og á morgun. Megi því búast við vexti í ám og lækjum á því svæði.
Það verður suðaustan 13 til 18 m/s í dag en lægir eftir því sem líður á daginn. Rigning suðaustantil, úrkomuminna suðvestanlands en hægari vindur og þurrt að mestu norðan heiða.
Það mun svo ganga í suðaustan 15 til 20 m/s austantil seint í kvöld en vindur verður mun hægari vestanlands.
Það mun rigna um mest allt land og verður hún „talsverð eða mikil“ suðaustanlands, eins og því er lýst af Veðurstofunni. Vestlæg átt 3 til 8 m/s og víða skúrir á morgun en áfram suðaustan strekkingur austantil með talsverðri rigningu suðaustanlands. Hiti verður á bilinu 8 til 13 stig.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag:
Suðaustan 13-20 m/s á austanverðu landinu, annars breytileg átt og mun hægari vindur. Mikil rigning á Suðausturlandi og Austfjörðum, en rigning með köflum í öðrum landshlutum. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast á Norðausturlandi.
Á fimmtudag:
Suðaustan 10-18 um landið austanvert, talsverð rigning og hiti 10 til 15 stig. Norðan 5-10 vestantil, rigning með köflum og hiti 6 til 10 stig.
Á föstudag:
Austan 10-18 m/s. Úrkomulítið á Norðurlandi, en rigning annars staðar og talsverð rigning suðaustanlands. Hiti 7 til 14 stig.
Á laugardag:
Suðlægátt 10-18 og rigning, en þurrt að kalla norðanlands. Hiti breytist lítið.
Á sunnudag:
Stefnir í austlæga átt með rigningu, einkum austantil á landinu. Hiti 7 til 12 stig.
Á mánudag:
Útlit fyrir norðlæga átt og rigningu en rigning með köflum sunnantil á landinu. Hiti breytist lítið.
Áfram rigning og vatnavextir
Stefán Ó. Jónsson skrifar
