Liverpool hefur sent inn kvörtun til Knattspyrnusambands Evrópu vegna þess að leikmaður liðsins varð fyrir kynþáttaníði í Moskvu á þriðjudaginn.
Leikmaðurinn heitir Bobby Adekanye og er aðeins átján ára gamall. Hann var að spila með Liverpool í Meistaradeild yngri liði.
Atvikið varð þegar Bobby Adekanye kom inná sem varamaður í seinni hálfleiknum. Hann mátti þola níðsöngva og ljótt látbragð um leið og hann kom inn í leikinn. Forráðamenn Liverpool urðu vitni að þessu og hafa sent inn kvörtun. Guardian segir frá.
Bobby Adekanye er fæddur í Nígeríu árið 1999 en hann spilar aðallega sem hægri vængmaður. Hann hefur spilað fyrir hollensku unglingalandsliðin en ekki fyrir landslið Nígeríu.
Leikurinn fór fram á undan leik aðalliða félaganna sem endaði með 1-1 jafntefli.
Unglingalið Liverpool tapaði þessum leik 2-1 á móti Spartak Mosvku en Steven Gerrard er þjálfari liðsins og hafði stýrt strákunum til 4-0 sigurs á Sevilla í fyrsta leiknum í Meistaradeild yngri liða.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slíkt mál kemur upp í Rússlandi en þetta er sérstaklega viðkvæmt núna af því að Rússar eru að fara að halda HM í fótbolta á næsta ári.
Spartak Moskva fékk einnig á sig þrjár ákærur frá UEFA vegna framkvæmd aðalleiks liðanna.
Stuðningsmenn Sparktak voru með flagg upp í stúku sem á stóð „UEFA mafía“, þá sprengdu þeir reyksprengjur eftir að Fernando kom liðinu í 1-0 í leiknum og þá mun UEFA skoða nánar níðsöngva stuðningsmannanna og hvort að stigagangar á leikvanginum hafi verið lokaðir.
Stuðningsmenn Spartak höfðu einnig skapað vandræði á fyrsta leik liðsins sem var á útivelli á móti Maribor. Þá var félagið sektað um 60 þúsund pund, 8,6 milljónir íslenskra króna og stuðningsmenn þeirra settir í bann á næsta útileik í Meistaradeildinni sem verður á móti Sevilla.
