Innlent

Þjóðvegurinn lokaður í viku hið minnsta

Erla Björg Gunnarsdóttir og Hersir Aron Ólafsson skrifa
Þjóðvegur 1 er lokaður á tveimur stöðum í kjölfar mikilla vatnavaxta á Suðausturlandi undanfarna daga. Brúin yfir Steinavötn er afar löskuð og verður líklega ekki farið í lagfæringar að sögn Guðmundar Vals Guðmundssonar, forstöðumanns hjá Vegagerðinni. Þess í stað verður farið í að byggja bráðabirgðabrú strax á næstu dögum, en þó má ætla að þjóðvegurinn verði lokaður í minnst viku í viðbót á meðan sú vinna stendur yfir.

Þá er þjóðvegurinn einnig lokaður við Hólmsá og fólk og fé því innlyksa á hluta svæðisins. Hundruð björgunarsveitarmanna hafa hafst við á Austur- og Suðausturlandi í dag við að ferja fólk, farangur og fé.

Meginþungi björgunarstarfa dagsins hefur verið á svæðinu umhverfis Höfn á Hornafirði í dag, þar sem allt að 100 björgunarsveitarmenn hafa verið við störf og hafa þeir haft þyrlur frá Landhelgisgæslunni sér til aðstoðar.

Jónas Hilmas Haraldsson, fulltrúi í aðgerðastjórn, segir að vel hafi gengið að ferja fólk og vistir milli hinna lokuðu svæða í dag. Þá sé fólk ekki beinlínis í hættu heldur miði aðgerðirnar að því að tryggja öryggi íbúa, ferja vistir og koma ferðamönnum af svæðinu. 

Erla Björg Gunnarsdóttir, fréttamaður á Stöð 2, var á Suðausturlandi í dag. Þar ræddi hún við staðarhaldara, bónda, björgunarsveitarmann og ferðamann á svæðinu auk aðgerðastjóra hjá lögreglunni. Samantekt Fréttastofu má sjá í spilaranum hér að ofan og frétt Erlu Bjargar frá vettvangi má sjá í spilaranum að neðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×