Magnús Ólafur Garðarsson, stofnandi og fyrrverandi forstjóri United Silicon, kærði starfsmenn lögreglunnar á Suðurnesjum og starfsmenn hjá Embætti héraðssaksóknara fyrir upplýsingaleka til DV.
Ríkissaksóknari hefur málið til rannsóknar og aðstoðar lögreglan á Vesturlandi við hana. Þetta kemur fram í skriflegu svari ríkissaksóknara við fyrirspurn Vísis.
Lögreglan á Vesturlandi yfirheyrði í dag blaðamanninn Atla Má Gylfason sem skrifaði frétt í DV í mars síðastliðnum um það að Magnús væri grunaður um að hafa valdið árekstri á Reykjanesbraut í desember 2016 með vítaverðum akstri.
Þá voru Kristjón Kormákur Guðjónsson, þáverandi ritstjóri DV og núverandi ritstjóri DV.is, og Kolbrún Bergþórsdóttir, ritstjóri DV, einnig yfirheyrð hjá lögreglu í dag.
Telur Magnús að Atli Már hafi óeðlilegan aðgang að upplýsingum við vinnslu fréttarinnar um árekstur Tesla-bifreiðarinnar en í færslu á Facebook-síðu sinni í kvöld segir Atli að hann hafi hvorki fengið upplýsingar hjá héraðssaksóknara né lögreglunni á Suðurnesjum. Þá muni hann aldrei gefa upp heimildarmenn sína.
Athygli vekur að starfsmenn héraðssaksóknara eru til rannsóknar en á mánudag kærði stjórn United Silicon Magnús til Embættis héraðssaksóknara vegna gruns um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals. Magnús hefur í yfirlýsingum til fjölmiðla sagt ásakanirnar rangar og tilhæfulausar.
Magnús var fyrr á árinu ákærður fyrir ofsaaksturinn á Teslunni í desember. Var hann ákærður fyrir almannahættubrot og líkamsárás af gáleysi en maður slasaðist í árekstrinum.
Magnús kærði starfsmenn héraðssaksóknara fyrir upplýsingaleka til DV

Tengdar fréttir

Fær 20 milljóna Teslu ekki aftur eftir meintan hraðakstur
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að Tesla-bíll Magnúsar Ólafs Garðarssonar, sofnanda United Silicon á Íslandi, verði áfram í haldi yfirvalda.

Magnús talinn hafa svikið áfram eftir starfslok
Magnús Garðarsson, fyrrverandi forstjóri United Silicon, hefur verið kærður vegna meints skjalafals og fjárdráttar. Talinn hafa falsað reikninga frá fyrirtæki á Ítalíu.

Svipmynd af Magnúsi Garðarssyni: Dýfingameistari, ökufantur og ævintýramaður
Ævintýralegur ferill fyrrverandi forstjóra United Silicon.