„Vinnubrögð ráðherra Sjálfstæðisflokksins í málinu hafa ekki staðist þær kröfur sem Viðreisn gerir um vandaða starfshætti og gegnsæi. Upplýsa þarf að fullu um þá atburðarás sem leiddi til þess trúnaðarbrests sem orðinn er.
Þá telur Viðreisn einsýnt að núverandi forsætisráðherra og dómsmálaráðherra geti ekki setið áfram á ráðherrastólum á meðan á rannsókn málsins stendur auk þess sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar verði að víkja sæti,“ segir í ályktun ráðgjafaráðsins sem samþykkti jafnframt að rjúfa þing og kjósa að nýju.

„Það þarf að upplýsa um alla málsmeðhöndlun þar sem dæmdir kynferðisbrotamenn hafa fengið uppreist æru og alla þá upplýsingagjöf sem stjórnvöld hafa staðið að varðandi málið síðan áður en gengið yrði til kosninga. Það yrði gert eins fljótt og auðið er með því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd myndi kalla eftir öllum nauðsynlegum upplýsingum um málið. Þá væri það alveg ljóst í okkar huga, hvernig svo sem stjórnarmynstur yrði fram að kosningum að við þær kringumstæður væri hvorki forsætisráðherra né dómsmálaráðherra sætt á meðan á slíkri rannsókn stæði,“ segir Þorsteinn í samtali við Vísi.
Hann segir nálægð þeirra við málið of mikil og það sé algjörlega nauðsynlegt að upplýsa það að fullu. Aðspurður segir hann algjöran einhug hafa verið í ráðgjafaráðinu um ályktun þess.
Þorsteinn segir að Viðreisn lítist ágætlega á að hafa kosningar í nóvember og að það ætti að gefa þinginu nægan tíma til að skoða málið ofan í kjölinn. Þá segir hann að flokkarnir þurfi núna að koma sér saman um það hvernig staðið verður að stjórn landsins fram að kosningum.
„Þar erum við að sjálfsögðu reiðubúin til að axla okkar ábyrgð en við segjum líka skýrt að það verði að ljúka rannsókn þessa máls.“