Innlent

Samþykkti ekki glæpinn heldur vottaði um betrun

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Komið hefur fram í gögnum dómsmálaráðuneytisins að Sólveig Eiríksdóttir í Gló og Þorlákur Morthens myndlistarmaður hafi skrifað meðmæli fyrir umsögn um uppreist æru. Sá fékk dóm fyrir kynferðisbrot árið 1997 en sótti um uppreist æru árið 2016.

Fréttastofa náði ekki tali af Þorláki en Sólveig Eiríksdóttir, sem stödd er í Kaupmannahöfn, segist hafa þekkt manninn frá fornu fari. Hún hafi hitt hann aftur í tólf spora samtökum fyrir nokkrum árum og hann hafi beðið hana um að skrifa fyrir hann meðmæli.

„Ég ákvað að heyra í lögfræðingi því ég vildi vera alveg viss um hvað fólst í að skrifa meðmælin. Hún tjáði mér að það sem fælist í þessu væri ekki að samþykkja glæpinn eða það sem hann sæti inni fyrir. Eingöngu að hann væri bætt og betri manneskja og væri búinn að vera það í einhvern tíma,” segir Sólveig.

Af vel ígrunduðu máli ákvað hún að skrifa meðmælin.

„Af því að ég var á engan hátt að samþykkja það sem hafði gerst. Heldur bara vera vottur um að hann væri bætt og betri manneskja,” ítrekar hún.

Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands lýsir meðmæla á sama hátt. Eingöngu sé verið að votta um hegðun á ákveðnu tímabili.

„Það er eina gildið sem þetta skjal hefur og að sjálfsögðu felur það ekki í sér samsömun eða viðurkenningu eða annað sem tengist þeim dómi sem maðurinn hefur afplánað,” segir hún.

Í ráðuneyt­inu er verið að taka sam­an gögn um alla þá sem hafa fengið upp­reist æru frá ár­inu 1995 eða 35 einstaklinga.

Björg segir atburðarásina síðustu vikur sýna og sanna hve forneskjuleg lögin eru og tími kominn til að breyta þeim. Hún áréttar að meðmælendur beri ekki ábyrgð.

„Að sjálfsögðu er þetta engin lagaleg ábyrgð. Ég myndi telja að það sé ekki óvenjulegt að einstaklingur, vinnuveitandi eða einhver sem þekkir til, veiti atbeina sinn til að maður eigi möguleika aftur á að fá borgaraleg réttindi. Þetta er lögum samkvæmt og hefur hingað til ekki þótt óeðlilegt eða búa til ábyrgð á hendur þeim sem búa til meðmælin.“


Tengdar fréttir

Fólkið sem felldi ríkisstjórnina: Málinu er ekki lokið

Fjölskylda Nínu Rúnar Bergsdóttur hefur stutt dyggilega við hana frá því snemma í sumar þegar það varð ljóst að Robert Downey hefði hlotið uppreist æru. Þau eru sammála um að málinu sé ekki lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×